145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:15]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmann um að agaleysið, sem er nú kannski undirrótin að því að menn fara alltaf út úr forgangsröðinni, taka aðra hluti fram fyrir. Ástæðan fyrir því að vegakerfið er einhvers konar bútasaumur oft og tíðum, liggur m.a. í því að það þarf að auka og bæta samráðið á milli landshluta, á milli stjórnmálaflokka, og tryggja og formgera verkferilinn einhvern veginn með þeim hætti þannig að menn séu þegar upp er staðið bundnir af því hvernig ákvörðunin var tekin.

Eins og sakir standa eru fögur markmið sett á blað, en enginn telur sig skuldbundinn af þessum sömu markmiðum. Þetta er vandamálið og einhvern veginn þarf að binda tryggðina við markmiðin þannig að þau nái fram að ganga. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á þá sjá þetta allir þegar þeir standa svo frammi fyrir því að aka þessa vegi og eyðileggja bílinn sinn á leiðinni út á Látrabjarg í „holuhrauninu“ sem heitir vegur þar. En á meðan menn heyra bara af því í fréttum að t.d. íbúar Árneshrepps hafi ekki heilsárssamgöngur yfir veturinn án þess að menn upplifi það á sjálfum sér, er svo auðvelt að láta það fram hjá sér fara. Það þarf því með einhverjum hætti að koma formgerð á ákvarðanatökuna til þess að binda fólk við hana, skuldbinda bæði stjórnvöld og aðra sem eiga að standa með áætlanagerðinni og stefnumótuninni þannig að hún nái fram að ganga.