145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög góð spurning. Nú vildi ég gjarnan hafa aðeins meira en tvær mínútur til að svara. Það er nefnilega fróðlegt að fara yfir það af hverju er jafn auðvelt alltaf að setja neikvæða merkimiða á það þegar menn berjast fyrir því að fá úrbætur í brýnum samgöngumálum og loksins það tekst þá er það kallað öllum illum nöfnum. Fólki finnst það mjög ósanngjarnt þegar það er búið að bíða eftir vegi yfir þessa heiði hér eða brú yfir þessa á þar kannski í 10, 20, 30 ár og svo loksins kemur hún, þá er það eitthvað neikvætt, þá er það kjördæmapot þegar menn horfa á það úr öðrum áttum.

Ekki ætla ég að neita því að á árum áður hafi stundum skort upp á það að nægjanlega góður faglegur grunnur væri lagður undir forgangsröðun verkefna og tillögur í samgönguáætlun, en síðastliðin 25 ár a.m.k. hafa menn virkilega reynt að vanda það verklag. Þegar ég var samgönguráðherra fyrir nokkrum árum, kannski u.þ.b. sem hv. þingmaður var að fæðast, var lagt af stað í þá vegferð að búa til samþætta samgönguáætlun. Áður var þetta hólfað niður og algerlega aðskilið í vegáætlun, hafnaáætlun og flugmálaáætlun, og þessi kerfi töluðu ekki mikið saman. En þetta tengist að sjálfsögðu. Það var mikil framför í því að hafa heildstæða samþætta samgönguáætlun byggða á faglegum undirbúningi samgönguráðs eins og nú er. Það er ósköp lítið eftir um slíka pólitík. Yfirleitt er ekki mikið verið að hrófla við þeirri röð sem kemur út úr hinum faglega farvegi. Deilur hafa þá frekar staðið um hvort eigi að gera meira eða minna, hvort þetta sé nóg. Ég held að t.d. umræðan núna snúist að sáralitlu leyti um að það eigi frekar að fara í þennan veg en hinn. Ég hef ekki merkt það hér í umræðunni. Fyrst og fremst eru það áhyggjur manna af því að vegakerfið er orðið svo laskað að það þarf meira til ef við ætlum að vinna upp slakann sem þar er orðinn og vanrækslusyndir liðinna ára. (Forseti hringir.)

Þessi umræða ætti því ekki að þurfa að vera svona hávær og sígild, en menn eru voða varnarlitlir (Forseti hringir.) þegar þeir fá á sig merkimiðana atkvæðakaup og kjördæmapot, kannski vegna þess að slíkir hlutir áttu stundum (Forseti hringir.) rétt á sér í gamla daga.