145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins meira um umræðuna um málin, tökum bara Vaðlaheiðargöngin sem dæmi. Það vantar ekki að menn sem beittu sér fyrir því að ráðist var í þau hafi verið kallaðir öllum illum nöfnum. Bara nýlega kom gamalkunnug gusa frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og það var allur pakkinn. Það var kjördæmapot og það voru atkvæðakaup, var bara sagt að maður hefði verið að kaupa þingsæti sitt með því að beita sér fyrir því að sú framkvæmd færi af stað. En hver er forsagan? Tíu, fimmtán ára barátta að baki því að fá þá framkvæmd, massíf samstaða á öllu svæðinu um að þetta sé mikilvæg framkvæmd. Fámenn sveitarfélög hafa lagt fram heilmikið hlutafé til félagsins og umferðin ætlar að borga göngin með veggjöldum, en samt er látið svona. Þannig að það er ekki auðvelt við að eiga.

Við þurfum auðvitað að dýpka umræðuna um þjóðhagslegt mikilvægi þessa málaflokks og hversu gríðarlega (Forseti hringir.) brýnt það er fyrir okkur sem þjóð sem ætlum að búa í góðu nútímasamfélagi hér í framtíðinni að halda einbeitt (Forseti hringir.) áfram uppbyggingu þessara innviða samfélagsins.