145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur lengi verið viðloðandi þennan málaflokk, er fyrrverandi samgönguráðherra. Það sem ekki er komið inn á í þessari samgönguáætlun, og lítið er fjallað um þessa dagana, eru möguleikarnir til strandflutninga. Það sem ég er að velta fyrir mér í því samhengi er hvaða möguleikar gætu falist í þeim aukna straumi ferðamanna sem er hér á landi um þessar mundir og hin síðustu ár. Því miður hefur, að mér vitandi, ekki farið fram nein skoðun á því hvort staðan sé slík að við gætum á einhvern hátt reynt að beina þeirri miklu umferð ferðamanna sem er á þjóðvegum landsins í einhvers konar farþegaflutningasiglingar á borð við Hurtigruten í Noregi, sem siglir upp og niður eftir ströndinni þar í reglulegum áætlunarsiglingum, og hvort í því væri ekki fólgið tækifæri fyrir okkur Íslendinga að skoða möguleikana á því að nýta færið sem kann að vera uppi í þessum efnum til að fara, með sama hætti og var hér á árum áður, að flytja vörur sjóleiðina fremur en að fara þjóðvegina á þungum flutningabílum með tilheyrandi hættu fyrir allan almenning og álag á þjóðvegakerfið. Þetta er einn angi þessarar umræðu sem ekki er gefinn mikill gaumur þessi dægrin. Mér finnst forvitnilegt að heyra hugsanir hv. þingmanns um þessi efni.