145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt einn góður þáttur þessa máls og mikilvægur sem hefur farið óhönduglega, held ég, hjá okkur Íslendingum, sem búum dreift á ströndinni hringinn í kringum þessa stóru eyju, þar sem þéttbýliskjarnarnir raða sér allir á ströndina með höfnum nema fáeinir sem liggja aðeins uppi í landinu. En okkur tókst samt snemma á tíunda áratugnum að klúðra því niður. Strandsiglingar voru fram yfir 1990 reknar af þremur aðilum, Ríkisskipum og bæði Samskipum og Eimskip og allir aðilar töpuðu. Gerð var tilraun til að ná mönnum saman um reksturinn. Hún sprakk í loft upp enda höfðu skipafélögin takmarkaðan áhuga á því. Svo kom ríkisstjórn sem ákvað að leggja Ríkisskip niður, sem er einhver mesta ógæfuákvörðun sem ég held að lengi hafi verið tekin, ákaflega þjóðhagslega vitlaus. Þetta voru ekki háar fjárhæðir þrátt fyrir allt, 200–300 milljónir þá, sem þurfti til að styðja við bakið á rekstrinum til að hann væri á núlli. Þetta var nokkuð góð þjónusta meðan best lét, tvær viðkomur í viku á flestöllum höfnum hringinn í kringum landið. Þungavara og tæki og tól fóru mjög mikið með þessum skipum, auk þess sem íbúar notuðu þau í nokkrum mæli til að hoppa á milli staða og hefði mátt byggja það betur upp.

Ég held því að það sé raunhæft að aftur megi koma á módeli þar sem nútímaleg skip, sem eru mjög fljót að losa og lesta, „roll on, roll off skip“, eða með litla handhæga gáma, með stuttri viðkomu á hverri höfn, gætu komið þar við og ferðamenn gætu notað sér að taka hringinn eða hluta úr hringnum. Það væri ákaflega gaman að slík tilraun væri gerð.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var ákveðið að bjóða út strandsiglingar, tiltölulega gott net hringinn í kringum landið. Útboðsgögnin voru klár og það átti að fara að birta auglýsingu. Hvað gerðist þá? Þá stukku skipafélögin af stað og sögðu: Nei, við ætlum að fara í smástrandsiglingar. (Forseti hringir.) Og grundvöllurinn brast undan því að ríkið færi þá á sama tíma að bjóða þær út. En auðvitað er það allt of takmörkuð þjónusta með strjálum viðkomum á nokkrum stærstu höfnum, og alls ekki það sem þyrfti að vera, eiginlegt myndarlegt strandsiglinganet.