145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:35]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið átakanlegt að taka þátt í umræðu hér um áætlanagerð til lengri tíma sem ekki tekur á jafn stórum málaflokki og þessum, sem ekki snertir á því hvernig aukinn ferðamannastraumur hefur áhrif á samgöngukerfi landsins. Það er eiginlega stórfurðulegt að við skulum vera í slíkri áætlanagerð án þess að velta fyrir okkur hlutum eins og strandsiglingum, áhrifum aukins ferðamannafjölda á þjóðvegakerfið, á umferðaröryggi, á möguleikann til strandsiglinga, á staðsetningu flugvalla o.s.frv., með hvaða hætti við getum látið eitt styðja annað í þeim efnum, t.d. hvernig millilandaflugvöllur á nýjum stað á höfuðborgarsvæðinu, sem jafnframt væri innanlandsflugvöllur, gæti þjónað því markmiði að dreifa ferðamönnum með auknum hætti um landið. Þetta er eitt dæmi um það hvernig þessi allt of seint fram komna samgönguáætlun missir eiginlega marks, þó að búið sé að leggja hér til mjög jákvæðar breytingar til að reyna að bjarga henni.