145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála því, hef alltaf verið, að það sé eðlilegt að umferðin borgi í grunninn að mestu leyti fjárfestingar í samgöngukerfinu. Það er sanngjarnara að að uppistöðu til sé það þannig að þeir sem nýta sér samgöngukerfi, keyra á vegunum greiði þann kostnað heldur en þeir sem t.d. ekki gera það, að þeir með almennum skatttekjum sínum geri það.

Þá skulum við samt hafa í huga að ríkið fær gríðarlegar skatttekjur af umferðinni sem ekki eru merktar vegamálunum. Það er þannig að bæði bensíngjald og olíugjald er tvískipt, annars vegar almennt og hins vegar sérstakt. Það er bara hluti þess sem er eyrnamerktur Vegasjóði og svo þungaskatturinn. Ríkið fær allan virðisaukaskattinn af eldsneyti sem er selt. Þannig að í reynd er ríkið með miklar skatttekjur af umferðinni og langt umfram það sem rennur til framkvæmda í sjálfu vegakerfinu. Í sjálfu sér er ekkert að því (Forseti hringir.) ef menn eru þeirrar skoðunar að það sé þjóðhagslega skynsamlegt og hagkvæmt (Forseti hringir.) að gera betur í þessum málum að færa eitthvað af þeim skatttekjum yfir í beinar framkvæmdir í samgönguáætlun.