145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:02]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi orkuskiptin, eins og staðan er í dag ganga um 1–2%, nær 1%, af bílaflotanum í dag fyrir rafmagni eða metan, eru vistorkubílar eins og ég kalla það, og borga ekki þessar álögur. Á einhverjum tímapunkti þegar við erum komin upp í 20 eða 30% í þeim efnum þá gengur það auðvitað ekki. En það er ansi langt í það þannig að ég mundi segja að varðandi fjármögnun á kerfinu sé fyrsta skrefið að hækka bensíngjald eða álögur á eldsneyti, jarðefnaeldsneyti, sem er líka aðgerð sem miðar að því að minnka CO2-útblástur, þannig að það er bara sjálfsögð aðgerð, finnst mér. Ef við gerum það ekki þegar olíuverð er í lágmarki, hvenær ætlum við þá að gera það? Markaðar tekjur leggjast af, en það breytir því ekki að við munum eftir sem áður innheimta skatta sem eru þá ekki eyrnamerktir. Það er auðvitað bara pólitísk ákvörðun hvað við setjum í vegagerð og menn munu geta séð hversu mikið skilar sér af þeim gjöldum í ríkissjóð og því er svo deilt út aftur.

Í dag er það í rauninni þannig, eins og hv. þingmaður veit, að bara hluti af þessum peningum skilar sér sem til kominn er vegna samgöngumála, vegna álagningar á bíla og annars. Hann fer bara í hítina og í eitthvað annað en samgöngumálin. Það er þá í sjálfu sér pólitísk ákvörðun hverju sinni. Það verður þannig um alla markaða tekjustofna. En við munum alltaf geta séð hvað við fáum mikið út úr bensíngjaldinu eða olíugjaldinu eða bifreiðagjaldi eða hvað það er. Svo er það bara pólitísk ákvörðun hversu mikið við ætlum að setja í samgöngukerfið. En ég held að sé grundvallaratriði að við skattleggjum þetta meira. Ég er hlynntari því að skattleggja bensín og olíu (Forseti hringir.) í stað þess að fara í einhvers konar kerfi þar sem maður borgar fyrir að keyra eftir ákveðnum vegarspotta.