145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Svo háttar til á Íslandi um þessar mundir að meiri hlutinn af bankakerfinu er í eigu ríkisins. Þó sér þess ekki stað að bankarnir, viðskiptabankarnir, taki mjög alvarlega þjóðfélagslegt hlutverk sitt. Þeir hafast þó misjafnt að, einn þeirra er í því að gefa ríkiseignir óðar og eftir því er falast, en mig langar að tala um einn viðskiptabankann sem þó er ekki nema að litlu leyti í eigu ríkisins í dag en gæti mögulega orðið það að öllu leyti innan skamms. Þar er ég að tala um Arion banka.

Eins og ég sagði áðan þá virðist það vera að þessir ágætu bankar treysti sér ekki einu sinni til að halda úti hraðbankastarfsemi víða út um land. Steininn tók þó úr núna þegar Arion banki fækkaði um 46 manns í vikunni og þar af um 19 á landsbyggðinni. Það má geta þess að til dæmis á Siglufirði, fæðingarbæ sitjandi forseta, eru sjö störf úti, sjö störf sem var lofað að yrðu til staðar eftir að þessi sami banki sölsaði undir sig sparisjóðinn á staðnum. Í öðru litlu útibúi, sem er útvörður bankans hér ekki fjarri Reykjavík, fóru stöðugildi úr því að vera þrír 100% starfsmenn í tvo 75% starfsmenn. Hvernig á að tryggja öryggi þess að hægt sé að halda úti bankaþjónustu með slíku? Á sama tíma og þetta gerist boðar þessi banki að taka eigi upp bónusgreiðslur til stjórnenda bankans. Og það vill reyndar þannig til að þessum banka er stjórnað af aðila sem hefur fengið á sig mestu og flestar stjórnvaldssektir vegna samkeppnisbrota á Íslandi. (Forseti hringir.) Ég held að þessi banki sem hér um ræðir, Arion banki, þurfi að taka hlutverk sitt aðeins til athugunar og áherslur sínar í rekstri.


Efnisorð er vísa í ræðuna