145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í þessum töluðu orðum er að hefjast þing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á Seyðisfirði. Þar er okkur þingmönnum kjördæmisins ætlað að vera og þar er okkur ætlað hlutverk. Í framhaldinu bíður mín nokkurn veginn pökkuð atburðadagskrá tengd kosningunum fyrir norðan og austan alla næstu viku. Kosningabaráttan er auðvitað þegar hafin, eins og við sjáum á margfrægri fjarveru ráðherra og margra stjórnarliða sem eru hættir að sinna störfum sínum hér í þinginu og eru farnir í kosningabaráttu. Sá er munur á að þeir sem eru í framboði og heyja sína baráttu í Reykjavík og næsta nágrenni geta auðvitað í einhverjum mæli gert það samhliða þingstörfunum, skotist á fundi ef það tekur tíu mínútur eða hálftíma að fara frá þinghúsinu. En það er ekki hægt fyrir okkur þingmenn sem erum í framboði í landsbyggðarkjördæmunum og alveg sérstaklega ekki í Norðausturkjördæmi því að það er ekkert í boði annað en flug og/eða margra klukkutíma akstur til þess að sækja þar atburði.

Þessi staða gengur ekki upp, herra forseti. Ég skora á forseta Alþingis, og veit að ég þarf ekki brýna þann sem nú situr þar á stóli og þekkir þessar aðstæður, að láta þetta ekki líðast. (JónG: Þú verður að nýta helgina.) Að láta þetta ekki líðast — og hætt þú að gjamma fram í endalaust, Jón Gunnarsson. Það er alveg óþolandi að hafa þig hérna í salnum, satt best að segja, þú verður að fara á námskeið í mannasiðum ef þú ætlar að vera áfram á þingi. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta er bara svona, forseti.

Mér er ekki skemmt yfir þessu, ég tel mig hafa gegnum tíðina rækt mínar þingskyldur nokkuð vel og get alveg lagt fram gögn um það, bæði í sambandi við viðveru á fundum og framlagningu mála og annað slíkt. Mér er auðvitað ekki skemmt þegar ég er neyddur til þess að annaðhvort vanrækja þingskyldurnar eða sinna ekki atburðum í kosningabaráttunni sem þegar er hafin. Þinginu verður að ljúka núna á allra næstu sólarhringum og forseti Alþingis á að ganga í það mál (Forseti hringir.) að gera forustumönnum stjórnarflokkanna það ljóst að þetta gangi ekki lengur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna