145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég get vottað það að einhver duglegasti þingmaður þingsins í gegnum tíðina er sá þingmaður sem talaði hér á undan mér, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þannig að þegar við erum komin á þennan stað í þingstörfunum að það er farið að há verulega þeim þingmönnum sem eru í stórum landsbyggðarkjördæmum þurfum við virkilega að fara að hugsa okkar gang.

Mig langar að fjalla aðeins um það að á síðustu dögum þingsins virðist einhvers konar dularfullt kraftaverk gerast meðal þingmanna og stjórnarliða, eða ráðherra í ríkisstjórn og minni hlutans, því að þá allt í einu virðast opnast möguleikar á að leysa mál í mikilli sátt, erfið mál, finna lausnir, sem kannski hefur tekið alveg ótrúlega langan tíma að finna farveg að. Skyndilegar er eins og Móse komi og finni leið fyrir alla þingmenn til að labba í gegnum þá miklu gjá sem er oft á milli minni hluta og meiri hluta, sem við þingmenn Pírata höfum mikið tala fyrir að þurfi að breytast. Ég skora á þingmenn, væntanlega þingmenn nýs þing eftir að þessu lýkur, að finna leið til þess að breyta í alvörunni þeirri tegund af vinnubrögðum sem við höfum orðið vitni að hér undanfarið og finnum leiðir til þess að ná þverpólitískri sátt um mál. Ef það er ekki hægt, að finna þá leiðir sátta í staðinn fyrir að reyna að þvinga mál í gegn í miklu ósætti.