145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það margsinnis áður og segi það aftur að Alþingi er merkilega gegnsæ stofnun. Vandræðin hjá hinum almenna borgari við að átta sig á því sem hér gengur á felast kannski aðallega í því að ekki er almenn þekking á því hvernig Alþingi virkar þannig að fólk veit ekki að hverju það á að leita, hverju það á að fletta upp o.s.frv. Hitt er síðan hið alræmda skipulagsleysi Alþingis sem mér skilst að séu sögulegar ástæður fyrir til þess að þvælast fyrir stjórnarandstöðunni. Ég þekki ekki hvers vegna þetta er svona óskipulagt og skrýtið nú til dags.

Eitt af því afskaplega fáa sem ekki er gegnsætt á Alþingi eru nefndafundir, fundir með gestum sérstaklega. Þingmenn geta alltaf rætt sín á milli, þeir talast við í síma og hittast á göngum o.s.frv. og er ekkert út á það að setja. Það er bara eðlilegur hluti af þingstörfunum. Í nefndunum koma hins vegar oft gestir þar sem spurninga er spurt og skýrara ljósi varpað á málin. Sú umræða sem á sér stað með gestum á nefndafundum væri afskaplega gagnleg fyrir borgarann sem vill fylgjast með Alþingi og störfum þess. Gott dæmi er nýlegt frumvarp sem lagt var fram um höfundalög, um afritun til einkanota, frumvarp þar sem fram kom spurning í a-lið 1. gr. sem ekki kom í ljós endanlega fyrr en á nefndarfundi hvað átti að þýða nákvæmlega. Svo kom í ljós að það var ekki einu sinni það skýrt hverjar afleiðingar þess ákvæðis mundu verða, enda leggur nefndin til í nefndaráliti sínu, sem sá sem hér stendur er með á, að ákvæðið verði fellt brott.

Við meðferð þess máls minntist ég hversu mikilvægt það gæti verið fyrir almenning að hafa aðgang að þeim samtölum sem eiga sér stað á nefndafundum. Það er ekki leið til að uppræta spillingu vegna þess að spilling á sér ekki stað á nefndafundum Alþingis, en það getur hjálpað borgaranum við að skilja störfin hér, skilja eðli mála og taka virkari þátt í samtali við þingmenn ef nefndafundir væru opnir. Því legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna