145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú á síðustu dögum þingsins hefur hv. atvinnuveganefnd haft til umfjöllunar frumvarp til laga um heimild til að reisa og reka raflínur, þ.e. breytingar á stöðunni þar. Markmiðið var að fella úr gildi ákveðið ferli sem er yfirstandandi, kæruferli umhverfisverndarsamtaka og niðurstöðu kærunefndar umhverfis- og auðlindamála, og setja sérlög sem sniðin eru að nákvæmlega þessari framkvæmd.

Nú hefur þetta verið rætt í atvinnuveganefnd og hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur fengið aðkomu að þessari umræðu og haldnir hafa verið allnokkrir fundir um þau mál. Við höfðum mörg hver strax gert athugasemdir við það að hér væri um slæma löggjöf að ræða, fyrst og fremst vegna þess að um er að ræða ákveðinn yfirgang gagnvart almennri löggjöf, umhverfis- og náttúruverndarlöggjöf, löggjöf um kærunefnd, Árósasamning o.s.frv. Þeir sem hafa verið talsmenn málsins hafa talið að þeir væru búnir að róa fyrir allar víkur í þeim efnum og telja frumvarpið gott og að það sé vel undirbúið.

Nú höfum við fengið minnisblað frá iðnaðarráðuneytinu um 3. gr. laganna þar sem fram kemur að samkvæmt frumvarpinu, eins og það kom frá ráðherra, muni frumvarpið hafa áhrif á önnur verkefni en þau sem tengjast atvinnuuppbyggingu á Bakka, þ.e. að frumvarpið geti náð til tiltekinna þátta sem tengjast fyrirhugaðri Hvammsvirkjun og einnig líklegt að ákvæðið hefði áhrif á framkvæmdaleyfi vegna Sandskeiðslínu 1 sem fyrirhuguð er vegna færslu núverandi línu á grundvelli samkomulags við Hafnarfjarðarbæ.

Hér er sem sagt um að ræða mun víðtækari löggjöf en menn hafa sjálfir talað fyrir. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta vera til marks um það hve illa ígrunduð þessi löggjöf er.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna