145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er greinilega einhver taugaveiklun komin í gang því að þegar ég benti hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á að nýta helgina vel í kosningabaráttu brást hann hér ókvæða við og bauð mér að koma á hlýðninámskeið. Það er ekki í kot vísað að fara á hlýðninámskeið hjá hv. þingmanni en ég held að ég sleppi því alveg. Námskeið í tvískinnungi gæti hann örugglega kennt betur en nokkur annar.

Fréttir berast reglulega af því að miklir rekstrarerfiðleikar eru hjá einkareknum fjölmiðlum á Íslandi. Það er kallað eftir aðgerðum stjórnvalda og hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu tengda því máli til að lagfæra skekkju í rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja. Það stefnir í óefni. Skekkjan virðist aðallega vera tvíþætt, annars vegar staða RÚV á auglýsingamarkaði og hins vegar er um að ræða erlenda samfélagsmiðla, Facebook, Netflix, Google og hvað þetta heitir allt saman, sem eru að hirða til sín sífellt stærri hluta kökunnar á auglýsingamarkaði.

Hvernig á að bregðast við? Fljótlegasta leiðin og jafnframt sú einfaldasta til að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla gagnvart þeim erlendu virðist vera fólgin í því að afnema virðisaukaskatt með öllu af öllum fjölmiðlum, hvort sem um er að ræða ljósvakamiðla, hefðbundna prentmiðla, hvers kyns fjölmiðla á netinu. Hins vegar liggur fyrir að bann á áfengisauglýsingum, t.d. bjórauglýsingum, er fullkomin tímaskekkja í þessu umhverfi enda flæða þær yfir netið á íslenskum samfélagsmiðlum eins og Facebook. Það ber að afnema þetta bann, virðulegi forseti, til að tryggja samkeppnisstöðu fjölmiðlanna.

Íslenskir fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki varðandi þróun íslenskrar tungu og víða í löndum í kringum okkur eru þeir styrktir af ríkinu. Ég er ekki að mæla með slíkri leið en ég tel vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu íslenskra fjölmiðla að tímabundið komi til greina að styðja við bakið á einkareknum fjölmiðlafyrirtækjum. Þar á ég við yfir alla línuna með einskiptisaðgerð í tengslum við afnám virðisaukaskattsins.

Við höfum farið svipaða leið varðandi endurgreiðslu á kvikmyndum. Við erum núna að hleypa hér í gegn máli varðandi (Forseti hringir.) endurgreiðslu á hljóðritun á tónlist sem er af sama meiði. Ég held að þingheimur ætti að sameinast um að klára það núna að styrkja íslenska fjölmiðla og þar með íslenska tungu á þessum lokametrum og klára þetta mál.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna