145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um það að við ættum að hafa nefndarfundi opna, eins og ég hef nú gert áður. Ég verð að viðurkenna að þegar ég hlusta á þessa umræðu finnst mér svolítið sérstakt að heyra þá menn sem réðu hér öllu árið 2009, og hættu þinginu einni viku fyrir kjördag, og voru þá að láta okkur ræða kosningalög og breytingu á stjórnarskrá, fara mikinn og heimta að allir fari heim. Og ef hv. þm. Jón Gunnarsson vogar sér að segja eitt orð úti í sal þá er hann umsvifalaust boðaður í námskeið í mannasiðum. Ég ætla ekkert að hafa fleiri orð um þetta, en þetta vekur athygli.

Virðulegi forseti. Nú er kosningabaráttan fyrir nokkru hafin. Mér finnst vanta svolítið umræðu um sjálfbærni. Þá er ég að vísa til þess að við höfum sjálfbærni í ríkisfjármálum. Við megum ekki gleyma reynslu okkar síðustu árin. Ástæðan fyrir því að við unnum okkur hratt út úr fjármálahruninu var sú að við vorum búin að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ef svo hefði ekki verið hefðum við átt mjög erfitt með að vinna úr þessu. Við erum ekki komin á þann stað enn þá. Við getum komist á þann stað ef samstaða er um að eyða ekki um efni fram, að nýta þá fjármuni sem eru til staðar til að greiða niður skuldir.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við þá fóru 80 milljarðar í vaxtagjöld, sem var þá tvöfaldur rekstrarkostnaður Landspítalans. Núna hefur þetta lækkað um nokkra tugi milljarða, en þetta eru samt enn háar upphæðir. Ef bjartsýnisáætlun á að ná fram að ganga, og við seljum eignir sem við fengum úr stöðugleikaframlaginu, þá erum við að tala um það að innan fárra ára verði vaxtagjöldin samt á milli 30 og 40 milljarðar kr. Það er mun meiri upphæð en við setjum í rekstur Háskóla Íslands.

Við getum deilt um ýmislegt, en ef við viljum sjá stöðugleika, ef við viljum sjá lægra vaxtastig, þá gerum við það (Forseti hringir.) með því að sýna aðhald og ráðdeild í ríkisfjármálum og greiða niður skuldir ásamt ýmsu öðru. En þetta er hins vegar forsenda. Ég vonast til þess að við náum samstöðu um það, virðulegi forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna