145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á stöðu málsins eins og hún er orðin hér á lokametrum umræðunnar um samgönguáætlun. Mig langar sérstaklega við þetta tilefni til að þakka samgöngunefnd eins og hún leggur sig fyrir umræðuna, en ekki síður fyrir að nefndin í heild skuli sammælast um að gera breytingartillögur minni hlutans að hluta að sínum. Ég vona að það sé til marks um að við séum a.m.k. að ljúka þessum málaflokki með þeim sóma sem okkur er fært því að ekki verður fram hjá því litið að við afgreiðum hér áætlun sem er meira og minna um liðinn tíma, sem er kannski táknrænt fyrir stöðuna í pólitíkinni og arfleifð þessarar ríkisstjórnar, ef svo má að orði komast.

Hér erum við í raun að bæta inn 1 milljarði á hvort ár í viðhald og erum þar með að koma til móts við ábendingar Vegagerðarinnar og það sem þar hefur komið fram. Við lögðum til 1,5 milljarða á hvort ár og vegamálastjóri talaði um 11 á hvoru ári en við erum hér komin í 9. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Munar um svona upphæð á landsvísu? Þarna er um að ræða opinn lið, þann sem ekki fellur á tiltekin svæði, heldur almennan lið sem Vegagerðin ráðstafar. Mun almenningur sjá breytingu á grundvelli þessarar breytingartillögu?