145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:14]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, almenningur mun sjá mun, sérstaklega ef við horfum til þess að hér er um að ræða 9 milljarða árið 2017, á næsta ári, og aðra 9 milljarða árið 2018. Síðan vona ég að næsta þing muni þá fara skrefinu lengra og færa þetta upp í 11 milljarða, sem er það sem þarf til viðbótar við 9 milljarðana þannig að menn geti farið að uppfæra vegina, breikka o.s.frv. Við munum því sjá gríðarlega mikinn mun. Ef við setjum þetta í samhengi þá eru 18 milljarðar á tveimur árum langt upp í þá heildarupphæð sem sett hefur verið til samgöngumála á undanförnum árum. Það eru gríðarlega miklir fjármunir og þess vegna má segja að hér sé verið að stíga mjög skynsamleg skref. Ef við sinnum ekki viðhaldinu búum við til vanda inn í framtíðina, sem þýðir að við þurfum að fara í miklu fjárfrekari framkvæmdir vegna þess að vegir munu beinlínis skemmast og margir hverjir eru byrjaðir á því.

Það mun því skipta máli fyrir höfuðborgarsvæðið og fyrir marga vegi víða um landið.

Síðan er annað sem við tökum inn í breytingartillögurnar, eins og hv. þingmaður veit, t.d. vegi eins og að Látrabjargi, sem er svokallaður ferðmannavegur. Það sem okkur vantar og við nefnum í minnihlutaáliti okkar, eru t.d. áætlanir um uppbyggingu ferðamannavega, sem eru þá liður í að búa til einhverjar áætlanir um hvernig við ætlum að dreifa ferðamönnum betur um landið o.s.frv. þannig að áætlanir í ferðaþjónustu og uppbyggingu og áætlanir í uppbyggingu ferðamannavega rími betur saman.

Hið sama á við um hjólreiðastíga og jarðgangagerð. Ég vona að við munum nú sjá nýja tíma í umræðum um samgöngumál þar sem við reynum að horfa lengra fram í tímann. (Forseti hringir.) Við vinnum með mikla skammsýni núna og við erum að vinna úr áralangri skammsýni í vegamálum sem verið hefur á þessu kjörtímabili.