145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru margs konar þáttaskil í íslenskum stjórnmálum akkúrat þessa dagana og þessar vikurnar. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir er hér í dag á sínum síðasta þingfundi og hún heldur engar sérstakar kveðjuræður heldur er hún að tala um málefnin, sem mér finnst einkenna aðkomu hennar að þingstörfum, sem hefur sérstaklega verið ánægjulegt að fá að vera samferða henni í. Við vorum félagar í alveg ótrúlega merkilegri ríkisstjórn þar sem önnur okkar hélt um stýrið í iðnaðarmálunum og hin í umhverfismálunum. Við nudduðumst svolítið á til að byrja með en svo urðum við bandamenn og höfum verið það síðan, bæði í umhverfis- og náttúruverndarmálunum í umhverfis- og samgöngunefnd, en líka ítrekað í kvenfrelsismálum. Mér finnst dálítið skemmtilegt að geta sagt frá því að kona sem er töluvert yngri en ég, rúmlega tíu árum yngri, sé mér pólitísk fyrirmynd vegna þess að hún er nagli, hún er óhrædd við átök en hún er líka manneskja lausna og málefnalegrar vinnu, sem er mikilvægt fyrir okkur öll að hafa að leiðarljósi. Það er mér sérstakur heiður að hafa verið henni samferða þetta sögubrot í hennar pólitíska lífi. Hún er reynslumesta þingkonan sem við kveðjum nú við þessar kosningar og hefur verið gríðarlega mikill og öflugur baráttumaður fyrir betra samfélagi. Takk, Katrín Júlíusdóttir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)