145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:18]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað skal segja eftir svona falleg orð annað en að ég vil líka þakka ykkur öllum fyrir sérstaklega gott samstarf. Ég er búin að vinna með mörgum. Þetta er fjórða kjörtímabilið mitt. Ég er 41 árs og er sest í heiðurssæti á framboðslista sem ég sá ekki fyrir mér að mundi nokkurn tímann gerast. Þetta er búinn að vera gríðarlega gefandi og góður tími og þessi stofnun hér er gríðarlega mikilvæg. Mér finnst við þingmenn mega tala oftar um hvað hún er mikilvæg. Þó að fólki úti í samfélaginu finnist við kannski stundum lengi að komast að niðurstöðu og ekki vinna alveg nógu hratt og bregðast ekki nógu hratt við er það vegna þess að hér þurfum við að vanda til verka. Þetta er málstofa um bestu fáanlegu niðurstöðu í málum. Það hefur sýnt sig að þegar við flýtum okkur gerum við mistök.

Ég vona og veit að virðing Alþingis á eftir að aukast þegar menn sjá það mikilvægi sem hér er og þann mannauð sem hér hefur verið. Ég hef komið að mörgum stórum málum í þinginu. Vænst þykir mér um þátt minn í því að stöðva einkavæðinguna á grunnvatninu, sömuleiðis að hafa tekið þátt í því að koma í gegnum þingið löggjöf sem bannaði framsal á opinberu eignarhaldi á orkuauðlindum þannig að opinberum aðilum er núna bannað að selja auðlindirnar sjálfar. Það fannst mér skipta máli. Mér fannst líka gaman að koma að lengingu fæðingarorlofs á sínum tíma. Ég get nefnt fjöldann allan af málum, m.a. náttúruverndarmálin sem við Svandís Svavarsdóttir og Róbert Marshall unnum saman að í umhverfis- og samgöngunefnd. Það var ótrúleg upplifun og að fá að vinna með fólki eins og ykkur sem hefur svo djúpa þekkingu á málunum var lærdómsríkt fyrir mig.

Svo langar mig að segja að á þessu kjörtímabili hef ég fengið ástríðu fyrir málaflokki sem ég bjóst aldrei við að fá ástríðu fyrir, sem eru samgöngumál. Samgöngumál eru undirstaðan að lífsgæðum landans, allri byggðaþróun og samfélagsþróun í landinu. Ef þau eru ekki hugsuð til langs tíma hefur það neikvæð áhrif á þetta allt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka meiri tíma í þetta. Ég bjóst ekki við að fá svona fallega kveðju hér og ég vil segja: Dittó, elsku Svandís, takk fyrir samstarfið og takk fyrir allt saman. Ég mun halda á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á sunnudaginn þannig að þetta er lokadagur minn í þinginu.