145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

kveðjuorð.

[14:13]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Áður en allt fer hér á fulla ferð við lokaafgreiðslu mála á lokadögum Alþingis og þar sem ég fer utan í einkaerindum um helgina langar mig að fá að nota þetta tækifæri til að kveðja og þakka samþingsmönnum öllum svo og hinu frábæra og góða starfsfólki Alþingis fyrir samstarfið og góð kynni.

Ég var fyrst kosinn á Alþingi 8. maí 1999 fyrir gamla Norðurlandskjördæmi vestra eins og það hét en síðan fyrir hið stóra og víðfeðma Norðausturkjördæmi. Ég hef því setið á Alþingi í rúm 17 ár og nokkuð fleiri löggjafarþing, 22 talsins. Jómfrúrræðu mína flutti ég á Alþingi 15. júní 1999, nánar tiltekið kl. 11.18, og ræddi um, já, hvað annað en væntanlega kjördæmabreytingu, byggða- og samgöngumál. Nema hvað? kann einhver að segja.

Þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, kom í andsvar við hinn nýja þingmann sem þá var nýhættur að skjálfa á beinunum eftir 20 mínútna ræðu sem var byggð á minnispunktum og eftir minni þar sem einhverjir á mælendaskránni höfðu dottið út, ég var kallaður til fyrr en ég hafði reiknað með og gleymdi hinni skrifuðu jómfrúrræðu á gististað úti í bæ. En í seinna andsvari mínu sagði ég m.a. við hæstv. þáverandi forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Varðandi samgöngurnar vil ég endurtaka að þessir 2 milljarðar sem spilað var út rétt fyrir kosningar eru aðeins lítið brot í þetta málefni. Ég get t.d. minnt á að ef Siglufjörður, heimabær minn, á að lenda inni í Norðausturkjördæmi þá er alveg óhætt, hæstv. forsætisráðherra, að skrifa eitt stykki jarðgöng.“

Síðan hef ég staðið í nokkur hundruð klukkutíma í þessum virðulega ræðustól og notið hverrar einustu stundar. Mér hefur verið treyst fyrir ýmsum trúnaðarstörfum auk hefðbundinna nefndastarfa, svo sem verið varaformaður og ritari þingflokksins, formaður iðnaðarnefndar og síðan atvinnuveganefndar, 3. og nú á þessu kjörtímabili 1. varaforseti Alþingis og síðast en ekki síst samgönguráðherra og síðan samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Það get ég sagt þegar ég hugsa til baka á þessum tímamótum að þetta er langskemmtilegasta starfið sem ég hef tekið að mér á minni starfsævi, þótt erfiðleikatímar væru.

Á þessari kveðjustund vil ég þakka samþingsmönnum og starfsfólki Alþingis samstarfið síðastliðin 17 ár og hinu virðulega og mikilvæga Alþingi óska ég alls góðs á komandi árum. Ég er þakklátur og glaður fyrir að hafa fengið að starfa á Alþingi og þakka þess vegna alveg sérstaklega kjósendum mínum og stuðningsmönnum fyrir að treysta mér og velja mig til þessa ánægjulega starfs sem nú lýkur senn. Ég vona að ég hafi verið traustsins verður.

Hæstv. forseti. Einn flokksfélagi minn í þingflokknum hefur verið mér samferða allan þennan tíma á Alþingi en það er vinur minn, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég þakka honum nú langt, gott og farsælt samstarf frá mínum fyrsta degi á Alþingi, svo og öllum þingmönnum Norðausturkjördæmis sem ég hef starfað í, eins og áður sagði, og þá alveg sérstaklega hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem við höfum verið samferða síðastliðin 13 ár á kjördæmaferðum og kjördæmaralli, unnið ýmislegt og brallað saman í gegnum tíðina.

Síðast en ekki síst þakka ég núverandi hæstv. forseta og vini mínum, Einari K. Guðfinnssyni, sérstaklega gott og árangursríkt samstarf, bæði í forsætisnefnd og á Alþingi. Þegar ég hugsa til baka hófst áhugi minn á starfi á Alþingi einmitt í vinnu í svokallaðri byggðanefnd sem skipuð var vegna kjördæmabreytinganna sem leidd var af hæstv. forseta, Einari K. Guðfinnssyni. Þar urðu til ýmsar merkar og góðar tillögur en við Einar höfum ýmislegt gert, eins og t.d. að endurskíra ein jarðgöng vestur á fjörðum í fimm mínútna pásu á ríkisstjórnarfundi um árið.

Að lokum þakka ég enn og aftur af heilum hug fyrir samstarfið og óska öllum núverandi og verðandi alþingismönnum alls góðs í störfum sínum fyrir land og þjóð.

Hæstv. forseti. Mér finnst þessi vísa eftir gamlan krata, Hjört Kristmundsson, góð sem lokaorð mín í kveðjuávarpi á Alþingi:

Árin tifa, öldin rennur,

ellin rifar seglin hljóð.

Fennir yfir orðasennur,

eftir lifir minning góð.

Virðulegi forseti. Ég hneigi mig bæði fyrir núverandi forseta og embættinu sem slíku. Takk fyrir mig.