145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:34]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að 50 milljarðar séu ekki fjarri lagi þótt það sé að sjálfsögðu óábyrgt að segja það. En ég held að það sé mjög gagnlegt, til þess að fá tilfinningu fyrir því hvernig vegakerfið er á þessu svæði, að ímynda sér hvað það gæti mögulega kostað.

Ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar að göng séu mikilvæg. Við sjáum það t.d. bæði í Færeyjum og í Noregi þar sem er mikið fjalllendi og byggðin dreifð. Þar er einfaldlega í gildi stefna um að hafa göng, það er ekkert múður með það, þannig er það bara. Það er langöruggast og kemur í veg fyrir að fólk þurfi að fara upp á heiðar og göng eru oft eini möguleikinn sem gengur upp. Ég styð hv. þingmann í baráttu sinni fyrir Álftafjarðargöngum.

Mig langar líka að inna hv. þingmann eftir því hverju það breytir að hafa göng milli svæða, hvaða áhrif hefur það? Ég veit að hv. þingmaður er vel að sér um svæðið og ég veit að mörg göng þar eru tiltölulega ný, t.d. á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Getur hv. þingmaður sagt mér aðeins frá því hvernig það breytir aðstæðum í þeirri byggð? Jafnvel þó að manneskja úr Reykjavík sé ekki að fara um þarna á hverjum einasta degi liggur beint við að álykta sem svo að þetta hljóti að vera mikil búbót fyrir menningu og samstarf milli bæjarfélaga og líka hvað varðar umferðaröryggi. Það væri gaman að fá að heyra í hv. þingmanni.