145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef Álftafjarðargöngin yrðu að veruleika yrði þetta svæði orðið eitt heildstætt atvinnusvæði. Bolungarvíkurgöngin hafa gert það að verkum að miklu meiri samskipti eru á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar en voru varðandi alla atvinnu og samskipti. Það hefur gjörbreyst á stuttum tíma vegna þess að Óshlíðin var það hættulegur vegur yfirferðar og hún var oft og tíðum lokuð og er stórhættuleg. Það sama má segja um Súðavíkurhlíðina, þar er fólk reglulega á ferðinni til þess að sækja þjónustu inn á Ísafjörð. Þar er oft og reglulega lokað vegna snjóflóðahættu og vegna hættu á aurskriðum. Það er bara fólk með sterk bein sem þolir að búa við slíkt til lengdar, að eiga alltaf á hættu þegar það fer á milli með öll sín börn til að sækja sér þjónustu inn á Ísafjörð að lenda á milli tveggja snjóflóða og vera þar einangraður. Það gerir sér enginn grein fyrir þessu nema það fólk sem býr við aðstæður af því tagi.

Það yrði gífurleg breyting á högum fólks og áhuga fólks á að búa í Súðavík og mundi styrkja þetta svæði gífurlega að fá þessi göng. Þetta er líka leiðin frá Ísafjarðarbæ og Bolungarvík til höfuðborgarsvæðisins. Það þarf alltaf að fara Súðavíkurhlíðina og auðvitað jafn hættulegt fyrir allt það fólk sem fer þarna reglulega um, eins og landsbyggðarfólk gerir, til að sækja sér þjónustu á höfuðborgarsvæðið. Þetta er gífurlegt hagsmunamál og öryggismál og ég undirstrika það að við þingmenn kjördæmisins munum leggja fram breytingartillögu þess efnis að rannsóknir fari fram og fé verði ætlað í Álftafjarðargöng.