145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:57]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir austan, í Vík í Mýrdal, er mikill áhugi á því að fá göng í gegnum Reynisfjall. Heimamenn þar hafa í áratugi vonast eftir því að stuðningur og fjármagn fáist frá Alþingi á samgönguáætlun til að ráðast í þá framkvæmd. Það er hins vegar ekkert í umferðarmagni eða ytri aðstæðum sem réttlætir slíka ráðstöfun og verður örugglega seint gripið til hennar. Engu að síður hafa heimamenn lagst alfarið gegn öllum viðgerðum á núverandi vegalínu í þeirri von að þeir muni fá þetta fjármagn. Þeir hafa ekki viljað láta lagfæra götubrúnina sem hækkar frá láglendinu upp á hálendið, ef svo má til orða taka, um 125 m há vegalína norðan við Reynisfjall, vegna þess að þeir óttast að það leiði til þess að ekki fáist fjármagn í að grafa göngin í gegnum Reynisfjall. Því miður verða svona meinlokur oft til í vegakerfinu, í samgöngumálum, í samspili fjárveitingavaldsins og sveitarstjórnanna. Mér hefur lengi fundist það sama vera uppi á teningnum þegar kemur að vegarlagningu í gegnum Teigsskóg. Þar hafa heimamenn lagt gríðarlega áherslu á að fá veg gerðan í gegnum Teigsskóg, vissulega til að lagfæra miklar samgönguhamlanir sem felast í Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi, en það eru ekki stærstu hindranirnar á þessum vegi. Þetta er ekki það sem helst er að.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún kom í ræðu sinni inn á ástand vega á Vestfjörðum, um skoðanir hennar á þeirri stöðu sem þar er uppi. Hvernig væri hægt að hennar mati að lagfæra hana?