145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef verið viðloðandi þennan málaflokk, samgöngumálin, mjög lengi og hef oft velt því fyrir mér hvort ástæða væri til að finna nýja og kannski fræðilegri og faglegri leið til að forgangsraða en nákvæmlega með aðkomu stjórnmálamanna. Það er auðvitað okkar hlutverk að ráðstafa fjármagni og ákveða að hve miklu leyti það fari til nýframkvæmda og viðhalds og þar fram eftir götunum. En því miður er það oft þannig, þegar kemur að þessum málaflokki, að innan sveitarstjórnarstigsins er litið á það sem sjálfsagða skyldu þingmanna að endurspegla vilja heimamanna í þessum efnum. Þess vegna nefndi ég dæmið um Reynisfjall. Þegar ég var þingmaður Suðurkjördæmis og kom á fundi í Vík í Mýrdal var ég spurður álits á gangagerð í gegnum Reynisfjall. Ég sagði að mér þætti það fráleit ráðstöfun vegna þess að það væri ekkert vandamál til að leysa, að það mætti leysa með öðrum hætti. Ég uppskar fyrir vikið mörg upphrópunarmerki yfir því að ég skyldi ekki standa með heimamönnum í þessu sjálfsagða verkefni, sem er að mínu mati gríðarlega vafasamt með tilliti til náttúruverndar og þess viðkvæma lífríkis sem er við Dyrhólaósinn, sem er á náttúruminjaskrá. Þar fyrir utan þættu mér þetta miklir fjármunir í verkefni sem hægt væri að leysa með öðrum hætti. Vegagerðin hefur sýnt fram á að með því að færa veglínuna til og minnka hallann við götubrúnina væri hægt að gera þar miklu skaplegri veg sem væri miklu kostnaðarminni ráðstöfun.

Ég hef líka viljað velta þessu upp í tengslum við fyrirhugaðar vegaframkvæmdir í Reykhólahreppi. Mér finnst að þar eigi að láta fagleg sjónarmið ráða för, að það séu beinlínis tölur og útreikningar verkfræðinga sem verði til þess að besta niðurstaðan fáist í málið.