145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:14]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Stundum er talað um jarðgangaframkvæmdir eins og þær séu einfalt kjördæmapot og gæluverkefni, en þetta eru gríðarlegar mikilvægar framkvæmdir í landi eins og okkar þar sem samgöngur og landslag er eins og raun ber vitni, ekki síst á svæði eins og Vestfjörðum. Við skulum taka Dýrafjarðargöngin sem dæmi. Þau leysa af hólmi fjallveg sem er lokaður níu mánuði ársins. Ef þú kemst ekki Dynjandisheiði og yfir Hrafnseyrarheiði að vetrinum þarftu að fara sjö hundruð kílómetra sveig milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar, leið sem tekur ekki nema tvo og hálfa klukkustund að aka yfir sumarmánuðina. Það segir sig sjálft að þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir samfélögin beggja vegna hinna væntanlegu ganga út af heilbrigðisþjónustu, atvinnuuppbyggingu og til að ná fram markmiðum um samlegðaráhrif, um sameiningu stjórnsýslustofnana o.s.frv.

Álftafjarðargöngin — úttektir sýna að snjóflóðum á Súðavíkurhlíð hefur fjölgað mjög mikið eftir 1991 vegna breytinga á veðurfari og vindáttum í Ísafjarðardjúpi sem valda snjósöfnun í hlíðinni. Þannig mældust 56 snjóflóð á ári á Súðavíkurhlíðinni 1991–2000, samanborið við 42 á hinni stórhættulegu Óshlíð sem nú hefur verið leyst af hólmi með Bolungarvíkurgöngunum. Úttektaraðilar, fagaðilar, hafa bent á að jarðgöng séu eina aðgerðin sem getur tryggt fyllsta öryggi á þeirri leið og mundu auk þess stytta vegalengdina milli byggðarlaga töluvert. Talið er að á skalanum 1–10 mundu þessi jarðgöng fá árangurseinkunnina 10, en óbreytt ástand einkunnina 5. Það þýðir að Súðavíkurhlíðin er í raun rússnesk rúlletta. (Forseti hringir.) Þarna aka skólabílar með börn og fólk þarf að sækja alla þjónustu til Ísafjarðar daglega, margir sækja líka vinnu. Það er því ekki verjandi annað en að grípa til einhverra framkvæmda þarna.