145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að venda mínu kvæði í kross og fara í flugið. Rætt hefur verið um að skoða ýmsa möguleika. Flugfélag Íslands er að byrja að fljúga beint frá Keflavík til áætlunarstaða eins og Akureyrar; gæti verið til fleiri staða. Hvað finnst hv. þingmanni um að boðið sé upp á slíkt, burt séð frá deilunni um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar?

Ef við tökum það alveg út fyrir sviga og horfum bara til þess að ferðaþjónustuaðilar, hvort sem er Icelandair eða minni ferðaskrifstofur sem eru starfandi og eru að kynna sér mál á kaupstefnum erlendis, byðu upp á það að hægt væri að fljúga frá Keflavík á þessa flugvelli; Ísafjörður, Bíldudalur, Akureyri, Egilsstaðir, Höfn í Hornafirði, þess vegna Gjögur eða að endurræsa Alxeandersflugvöll á Sauðárkróki. Eru þetta ekki akkúrat tengisvæði, seglar, sem hægt væri að nýta í ferðaþjónustu og ættu ekki að trufla neitt annað, væru bara búbót og aukning?

Það gerist ekki neitt ef varan er ekki í boði, varan verður fyrst að vera í boði til að hún seljist. Hvað finnst hv. þingmanni um þetta? Hvað finnst henni um að skoða skosku leiðina um að innanlandsflug sé almenningssamgöngur og niðurgreiddar af ríkinu til þeirra sem eiga lögheimili fjærst markaðssvæðinu hér á höfuðborgarsvæðinu?