145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:18]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að varan verður að vera í boði og möguleikinn verður að vera til staðar til þess að einhver nýti sér hann. Þess vegna skiptir miklu máli að efla innanlandsflugið. Ég lít á innanlandsflug sem almenningssamgöngur þó að það sé ekki almenn skilgreining í dag, en ég tel að það þyrfti að líta þannig á. Skilgreina þarf hlutverk innanlandsflugsins og stjórnvöld ættu að leita sem flestra leiða til að geta haldið fargjöldum niðri svo að almenningur geti nýtt sér þennan valkost, ég tala ekki um þegar ástand veganna er eins og raun ber vitni.

Sú hugmynd að fljúga beint frá Keflavíkurflugvelli til staða úti á landi tel ég að sé góð og fullkomlega skoðunarvert að leyfa þá líka fleirum að njóta góðs af því. Ferðamannastraumurinn er að aukast og fyrir landsvæði sem vilja og þurfa gjarnan að geta notið góðs af ferðamannabylgjunni þá skiptir flugið auðvitað miklu máli og að hægt sé að gefa ferðamönnum kost á að fljúga beint til staða eins og Ísafjarðar, á Sauðárkrók og víðar. Það er liður í því að fleiri fái að njóta góðs af þeirri auðlind sem ferðaþjónustan er.

Fyrst við erum farin að tala um þetta vil ég líka nefna, sérstaklega í sambandi við Ísafjörð, að þar hefur verið varaflugvöllur, á Þingeyri, um allnokkurt skeið sem hefur sáralítið verið notaður og eiginlega eins og það hafi verið þegjandi samkomulag á tímabili að hætta að nota þann völl, til mikils óhagræðis fyrir fjölda íbúa sem þurfa að nýta sér flugsamgöngur, ekki síst vegna atvinnu sinnar. Það skiptir því líka máli að þau (Forseti hringir.) flugsamgöngumannvirki sem eru til staðar nýtist, að þeim sé viðhaldið og þau séu notuð. En ég tek undir með hv. þingmanni, það er góð hugmynd að fara að taka upp beint flug frá Keflavík á fleiri staði en til Akureyrar.