145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt fróðlega ræðu. Það er skemmtilegt að velta þessum hlutum fyrir sér í því samhengi sem hv. þingmaður gerði varðandi Færeyjar, vegna þess að hægt er að horfa á stöðuna með gestsauga og sjá í hendi sér að þar hefur orðið uppbygging sem þjónar öllu svæðinu vel. Ef menn ættu að beita sömu gleraugum eða reyna að fjarlægja sig helstu hagsmunum og því togi sem einkennir þessa umræðu á Íslandi þá blasir við sú staða að við þyrftum að gera átak, kannski tíu ára átak, þar sem við einsetjum okkur að ljúka þeim verkefnum sem fyrir liggja til þess að geta gert landið að einu eins samfelldu atvinnusvæði og mögulegt er með ákveðna þungamiðju í hverjum fjórðungi fyrir sig. Þar blasir við að ljúka þeim verkefnum sem við þurfum að ráðast í á Vestfjörðum, sem eru fólgin í samtengingu á milli sunnanverðra Vestfjarða og norðurbyggðarinnar, og svo auðvitað göngum, ég tek undir það, sem tengja Ísafjarðarbæ við Súðavík.

Svo er það Austurlandið líka. Það mundi margt leysast með vegi yfir Öxi, það væri ákaflega jákvætt ef það ætti sér stað. En ef maður horfir á heildarmyndina getur maður ekki horft fram hjá mikilvægi þess að fara í vegabætur og aðskilnað akstursstefna á milli Reykjavíkur og Akureyrar, þessa helstu byggðakjarna landsins, og eins að leysa með sambærilegum hætti umferðarþungann á Suðurlandi.

Meðal þess (Forseti hringir.) sem ég vil líka nefna er tenging Reykjavíkur við Vesturlandsveg með nýrri Sundabraut.