145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að mjög mikilvægt sé að horfa til framtíðar, vera með framsækna stefnu í þeim efnum þar sem m.a. almenningssamgöngur og hjólreiðar og allt það er undir. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, af því flugið hefur aðeins borið á góma, að skilgreina eigi innanlandsflugið sem almenningssamgöngur. Það er ekkert annað en almenningssamgöngur og í sumum tilvikum er það einu almenningssamgöngurnar sem menn eiga aðgang að, íbúar í Grímsey, á Gjögri, þetta eru einu almenningssamgöngurnar sem það fólk hefur og stóran hluta ársins á það við um fleiri byggðarlög. Það þarf að ná niður verðinu.

Samningurinn við höfuðborgarsvæðið og í framhaldinu við landshlutasamtökin um strætó og almenningssamgöngurnar á síðasta kjörtímabili markaði mikil tímamót. Það var í fyrsta sinn sem þess sá almennilega stað að við værum að komast inn í nútímann í þeim efnum. Það hafa býsna góðir hlutir gerst í framhaldinu, eins og við verðum vör við á höfuðborgarsvæðinu, þau okkar sem stundum förum út að skokka eða hjóla. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá þá þróun. Svo er það strætó, þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika hefur ástandið verið gjörbætt og það eru aftur í boði almenningssamgöngur.

Ég er sammála hv. þingmanni, búinn að segja það nokkrum sinnum í umræðunni um þessa blessuðu samgönguáætlun, sem væntanlega fæst nú loksins afgreidd og það í breiðari sátt en til stóð, enda búið að laga hana heil ósköp til og fyrst og fremst í þinginu. Hún var óskaplega metnaðarlaus og ónýt eins og hún kom fram í vor, enda skorin niður í þann ramma sem ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar setti henni, nokkurn veginn. Nú eru menn búnir að ákveða að ýta því til hliðar og setja umtalsvert meiri fjármuni í þetta. Það er góður áfangi svo langt sem það nær en í mínum huga bíður ekkert annað nýrrar ríkisstjórnar en að setja kraftmikla vinnu í það að skoða horfurnar til lengri tíma litið og hefur margt ágætt borið á góma einmitt í því sambandi í umræðunni. Það er ágætisveganesti (Forseti hringir.) í það t.d. fyrir samgönguráð og Vegagerðina að lesa vel þessa góðu umræðu sem hér hefur orðið.