145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:35]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann kom inn á mjög áhugaverðan punkt, sem er hvernig Norðmenn og Færeyingar hafa tekið á samgöngumálum sínum. Ég þekki vel til í Noregi, enda býr móðir mín þar, og þekki það að þar eru vegtollar mjög algengir, jafnvel í litlum byggðarlögum. Móðir mín býr í u.þ.b. 16.000 manna byggð, þ.e. á því svæði, og aðalvegurinn liggur inn í stóra bæinn þar í kring. Og af því að þar er verið að fara í miklar framkvæmdir, verið er að laga veginn, breikka hann og gera hann öruggari, er núna kominn 20 kr. skattur eða tollur á að keyra inn í bæinn og út úr honum, þ.e. fyrir að nota veginn. Þetta er allt saman á vegum ríkisins eftir því sem ég best veit. Þarna er í raun og veru ekki um einkaframkvæmd að ræða. Gjaldtakan fer bara í það að borga fyrir veginn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í eitt, Hvalfjarðargöngin á Íslandi sem eru nú gott ef ekki bara í einkaeign í raun og veru, þótt einhverjir skilmálar séu um að það eigi mögulega að afhenda íslenska ríkinu þann veg þegar Hvalfjarðargöngin eru búin að borga sig upp. Er þetta fyrirkomulag eitthvað sem við ættum mögulega að fara að skoða betur? Þá er ég að hugsa t.d. um vegi sem eru aðallega notaðir af ferðamönnum, taka hóflegt gjald, 200 kr., eitthvað því um líkt, hvort það mundi í raun og veru brúa það bil sem þarf til að svona framkvæmdir séu raunverulegur valmöguleiki. Þá hugsa ég t.d. um veginn að Látrabjargi. Það eru ekki margir sem fara þar um í einhverjum öðrum erindum en til að skoða fugla og landslag. Mig langar til að velta þessari spurningu upp með hv. þingmanni.