145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[17:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum nú um nokkra hríð verið að fjalla um línumálið svokallaða í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég á sæti. Það hefur vakið nokkra athygli að í minnisblaði frá iðnaðarráðuneytinu eru nokkur mál reifuð og loks gerð ákveðin tillaga að breytingu 3. gr. frumvarpsins þar sem í röksemd kemur fram að meginmarkmið frumvarpsins sé að breyta náttúruverndarlögum. Það er meginmarkmið frumvarps sem kemur frá iðnaðaráðuneytinu að breyta náttúruverndarlögum sem er umhugsunarefni fyrir það fyrsta.

Í öðru lagi fékk umhverfis- og auðlindaráðuneytið erindi frá umhverfis- og samgöngunefnd þar sem óskað var álits ráðuneytisins á bæði breytingum á náttúruverndarlögum og áhrifum þessa frumvarps á Árósasamninginn og EES-reglur. Það er skemmst frá því að segja að eftir fund nefndarinnar með ráðuneytinu í dag, seinni partinn í dag, liggur það fyrir svo alvarlegt sem það er að vegna ákvarðana ráðuneytisstjóra og ráðherra málaflokks umhverfismála var ákveðið að svara ekki erindi frá Alþingi með efnislegum hætti. Það er afar alvarlegt að löggjafarþingið geti ekki treyst því að ráðherrar og ríkisstjórnin standi með þinginu í því (Forseti hringir.) að fá bestu mögulegu upplýsingar þegar svo alvarleg álitamál eru annars vegar.