145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

854. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Jakob Frímann Magnússon, talsmann íslensks tónlistariðnaðar.

Frumvarpið byggist á sömu hugmyndafræði og lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi sem hafa verið liður í eflingu kvikmyndaiðnaðar á Íslandi á undanförnum árum. Með frumvarpinu er lagt til að unnt verði að sækja um endurgreiðslu til iðnarráðuneytisins á hluta þess kostnaðar sem fellur til við hljóðritun á tónlist hér á landi sem hefur verið gefin út og er aðgengileg almenningi. Ef 80% kostnaðar hafa fallið til hér á landi verður heimilt að endurgreiða allt að 25% af þeim kostnaði sem fellur á EES-svæðinu verði frumvarpið að lögum.

Fram kom við umfjöllun um málið að þetta baráttumál tónlistarmanna sé brýnt þar sem hljóðritun hafi stórlega minnkað hér á landi. Verði frumvarpið að lögum mun Ísland njóta jákvæðrar sérstöðu. Nefndin telur að um mikið framfaramál sé að ræða.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Lilja Rafney Magnúsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara. Jón Gunnarsson og Björt Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Auk þeirrar sem hér stendur rita undir álitið Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson og Líneik Anna Sævarsdóttir.