145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

631. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og framhaldsnefndaráliti ásamt breytingartillögum frá efnahags- og viðskiptanefnd. Álitin varða frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nánar tiltekið um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna.

Álit nefndarinnar er að finna á þskj. 1685 og breytingartillögur sem því fylgja eru á þskj. 1686. Vísa ég til þessara þingskjala þar sem ég mun ekki fara yfir þau frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði. Ég mun í framhaldi fjalla um framhaldsnefndarálit með breytingartillögu nefndarinnar sem finna má á þskj. 1727.

Virðulegi forseti. Ég vík þá fyrst máli mínu að nefndarálitinu og þeim breytingum sem nefndin leggur til.

Nefndinni bárust tólf erindi um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Fjármálaeftirlitinu, Landssamtökum lífeyrissjóða, Samtökum fjármálafyrirtækja, Stefni hf., Kauphöll Íslands og Seðlabanka Íslands. Nefndin fékk einnig á sinn fund Gylfa Magnússon dósent sem var formaður nefndar sem skipuð var árið 2013 til að endurskoða ákvæði um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna og þetta frumvarp byggir á. Að lokum mætti Kristján Loftsson fyrir nefndina, en hann skilaði inn umsögn um frumvarpið.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem auka svigrúm lífeyrissjóða til fjárfestinga, m.a. í óskráðum bréfum og sértryggðum skuldabréfum, og til að lána út verðbréf. Einnig er lagt til að kveðið verði á um ítarlegri reglur um áhættustýringu lífeyrissjóða og að lögfest verði viðmið í anda svokallaðrar skynsemisreglu.

Umsvif íslensku lífeyrissjóðanna eru mjög mikil í íslensku samfélagi og hrein eign þeirra nemur nú 3.300 milljörðum, en sú fjárhæð er ríflega ein og hálf landsframleiðsla. Það er því nokkuð ljóst að fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna getur haft margvísleg áhrif á efnahag landsins og lífskjör í landinu.

Í fyrsta tölulið 1. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að lífeyrissjóðir skuli hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi. Nefndin vekur athygli á að vegna umfangs lífeyrissjóðanna í íslensku samfélagi þurfi fjárfestingarstefna þeirra eftir því sem kostur er að stuðla að bættum efnahag og batnandi lífskjörum í landinu til framtíðar. Lífeyrissjóðir þurfa að mínu mati einnig að gera greinarmun á annars vegar fjárfestingum sem stuðla að raunverulegri verðmætasköpun og bættum lífskjörum í landinu og hins vegar fjárfestingu í fjármálagerningum sem kunna að hafa litla eða enga tengingu við raunhagkerfið og skapa ekki í sjálfu sér raunveruleg verðmæti þótt þau kunni að hækka í verði tímabundið.

Nefndin fjallaði einnig um siðferði í fjárfestingum og taldi rétt að áskilja að lífeyrissjóðir setji sér slík viðmið og upplýsi um þau.

Lífeyrissjóðum hefur verið heimilt að fjárfesta í íbúðarhúsnæði, en með frumvarpinu er lagt til að sú heimild falli brott, en lífeyrissjóðir geti þess í stað átt í fasteignafélögum. Fjárfestingar í fasteignum geta haft ýmsa kosti fyrir lífeyrissjóði og lífeyrisþega, fjölgun fjárfestingarkosta auðvelda áhættudreifingu. Fasteignir gefa gjarnan af sér fyrirsjáanlegan tekjustraum til langs tíma sem hentar vel fyrir lífeyrissjóði sem mæta langtímaskuldbindingum um greiðslu lífeyris. Þá geta fjárfestingar lífeyrissjóða í fasteignum þjónað því samfélagslega hlutverki að ýta undir uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis og innviða. Nefndin telur því æskilegt að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta í fasteignum og telur ónauðsynlegt að áskilja aðkomu milligönguaðila í þeim efnum. Nefndin leggur því til breytingar á 5. og 8. gr. frumvarpsins sem heimilar lífeyrissjóðum að fjárfesta beint í fasteignum.

Lagt er til að fasteignir falli undir eignaflokk E ásamt hlutum og hlutdeildarskírteinum í félögum eða sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, samanber 5. tölulið 2. efnismgr. 5. gr. frumvarpsins. Heimildin verður því sambærileg við heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í félögum um rekstur fasteignar.

Í frumvarpinu eru ákvæði sem rýmka heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í sértryggðum skuldabréfum sem aðallega eru gefin út af innlánsstofnunum. Við slit á innlánsstofnun mundu kröfur samkvæmt sértryggðum skuldabréfum njóta forgangs umfram innstæðukröfur og draga þannig úr vernd innstæðna. Forgangur innstæðna var veigamikill þáttur í því að vel tókst til við uppgjör á slitabúum gömlu bankanna sem féllu haustið 2008. Það uppgjör hefði verið til muna erfiðara hefði verulegur hluti krafna á hendur bönkum notið forgangs umfram innstæður líkt og sértryggð skuldabréf gera. Því gæti orðið erfiðara að takast á við framtíðaráföll í fjármálageiranum hafi bankar og sparisjóðir gefið út umtalsvert af sértryggðum skuldabréfum sem njóta forgangs umfram innstæður. Af þessum sökum taldi nefndin óheppilegt að ýta undir útgáfu banka- og sparisjóða í sértryggðum skuldabréfum með því að greiða sérstaklega fyrir fjárfestingu lífeyrissjóða í þeim og lagði til breytingu sem fólst í því að lífeyrissjóðum yrði óheimilt að fjárfesta í sértryggðum skuldabréfum. Í henni felst reyndar ekki að lífeyrissjóðum verði óheimilt að fjárfesta í sértryggðum skuldabréfum, en þær yrðu meðhöndlaðar sem fjárfestingar í almennum skuldabréfum fjármálafyrirtækja.

Þess ber að geta nú að í framhaldi af viðbrögðum við þessu nefndaráliti fékk nefndin gesti til sín að ræða um þessa breytingu varðandi sértryggðu skuldabréfin. Ég fjalla um það hér á eftir að nefndin féllst á þau rök sem þar komu fram. Ég mun lýsa því hér á eftir þeirri breytingu sem varðar sértryggðu skuldabréfin.

Þá að afleiðunum. Samkvæmt gildandi lögum er lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta í afleiðusamningum en aðeins í því skyni að draga úr áhættu. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir sambærilegum áskilnaði um að eingöngu sé fjárfest í þeim til að draga úr áhættu lífeyrissjóða. Þannig væri verið að opna á það að þeir gætu keypt afleiður til að taka áhættu. Afleiðusamningar eru einkum nýttir í áhættuvarnir annars vegar og spákaupmennsku hins vegar. Nefndin telur spákaupmennsku með afleiðusamningum ekki samræmast hlutverki lífeyrissjóða sem langtímafjárfesta. Nefndin leggur því til að áfram verði áskilið að afleiður dragi úr áhættu sjóðanna séu þær keyptar.

Í frumvarpinu er áskilið að unnt sé að selja samdægurs á raunvirði þær afleiður sem ekki eru skráðar á skipulögðum verðbréfamarkaði, en Landssamtök lífeyrissjóða og Samtök fjármálafyrirtækja bentu á að lífeyrissjóðir hefðu ekki sömu þörf á að geta selt eignir samdægurs og verðbréfasjóðir, enda kæmu skuldbindingar lífeyrissjóða til útgreiðslu á löngum tíma ólíkt verðbréfasjóðum sem hefðu ríkari innlausnarskyldu. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins kom þó fram að um öryggisákvæði væri að ræða sem takmarkaði mögulegt tap lífeyrissjóða af afleiðum. Með hliðsjón af tillögu Fjármálaeftirlitsins leggur nefndin til að slakað verði á áskilnaðinum með því að ekki þurfi að vera unnt að selja afleiðu samdægurs ef unnt er að gera hana upp eða loka henni samdægurs á raunvirði.

Samkvæmt frumvarpinu er lífeyrissjóðum óheimilt að eiga meira en 15% af hlutafé í hverju fyrirtæki eða hlutdeildarskírteinum eða hlutum sjóða um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra.

Sú takmörkunin sætti talsverðri gagnrýni hjá umsagnaraðilum. Bent var á að svo lágt hlutfall torveldaði fjármögnun lífeyrissjóða á verkefnum, einkum í ljósi viðvarandi fækkunar lífeyrissjóða. Þannig þyrfti að minnsta kosti sjö lífeyrissjóði til að fjármagna verkefni ef ekki kæmi til önnur fjármögnun.

Þótt nefndin telji réttmætt að vinna gegn óhóflegri samþjöppun áhrifavalds í íslensku viðskiptalífi telur nefndin það ekki girða fyrir að hlutfallið verði aðeins hærra en 15% enda fjarri því að vera ráðandi hlutur. Með tilliti til fyrrgreindrar gagnrýni leggur nefndin því til að hlutfallið hækki úr 15% í 20%.

Í frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilað að lána fjármálafyrirtækjum verðbréf til skamms tíma með tilteknum skilyrðum, þar á meðal um tryggingar. Lífeyrissjóðir geta þannig aukið tekjur sínar af verðbréfum með því að taka þóknun fyrir lánin. Lánin geta greitt fyrir tilteknum viðskiptum lántakanna, þar á meðal svokallaðri skortsölu verðbréfa.

Þótt lífeyrissjóðir geti vissulega aukið tekjur sínar af verðbréfum með þóknunum fyrir lán á bréfunum mundu þeir á móti taka á sig áhættuna af því lántakinn skili ekki verðbréfunum og framlögð trygging dugi ekki til að bæta tjónið að fullu. Verðbréfalán eru almennt skammtímaviðskipti sem hafa í besta falli óbeina tengingu við raunhagkerfið og eru í mörgum tilvikum liður í hreinni spákaupmennsku. Nefndin telur þátttöku í slíkum viðskiptum ekki samræmast hlutverki lífeyrissjóða sem langtímafjárfesta. Auk þess telur nefndin óheppilegt að greiða fyrir skortsölu verðbréfa meðan ekki hefur verið mótaður skýrari lagarammi um slík viðskipti. Nefndin leggur því til að heimildin verði felld brott úr frumvarpinu og lífeyrissjóðum verði þar með óheimilt að lána verðbréf.

Aðrar breytingartillögur sem nefndin leggur til er að ákvæði um að ábyrgðaraðili áhættustýringar skuli hafa milliliðalausan aðgang að stjórn lífeyrissjóðs verði fært í 2. efnismgr. greinarinnar sem um ræðir. Nefndin telur þannig skýrara að fyrirmælin eigi við um alla lífeyrissjóði en ekki aðeins um smáa lífeyrissjóði sem fyrri málsliður 3. efnismgr. greinarinnar tekur til.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið reifaðar í stuttu máli, en þær eru nánar útlistaðar á þskj. 1685 og 1686.

Undir nefndarálitið rita 19. september eftirtaldir hv. þingmenn, en Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins:

Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Brynjar Níelsson, Guðmundur Steingrímsson, Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Valgerður Bjarnadóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson.

Virðulegi forseti. Ég mæli nú fyrir framhaldsnefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um sama frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Framhaldsnefndarálitið ásamt breytingartillögu er að finna á þskj. 1727. Eins og fram er komið afgreiddi nefndin málið með nefndaráliti þann 19. september ásamt breytingartillögu á sérstöku þingskjali. Í kjölfar þess bárust nefndinni erindi og ábendingar frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Samtökum fjármálafyrirtækja. Nefndin ákvað að leggja fram framhaldsnefndarálit og breytingar til að bregðast við þeim ábendingum sem henni bárust. Fyrst ber að geta þess að í 1. málslið 1. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins segir nú að lífeyrissjóðir skuli tilnefna starfsmann hjá sjóðnum til að bera ábyrgð á greiningu, mati, vöktun og stýringu áhættu, en Landssamtök lífeyrissjóða lögðu til að í stað orðanna „mati, vöktun og stýringu“ kæmi: mælingu og skýrslugjöf um. Þessi breyting væri til að árétta að það væri ábyrgð lífeyrissjóðs í heild og stjórnar hans að stýra áhættu en ekki eins starfsmanns. Nefndin fellst á þessi rök og leggur til slíka breytingu.

Varðandi sértryggðu skuldabréfin þá var í breytingartillögu nefndarinnar frá 19. september lagt til að c-liður 2. töluliðar 2. efnismgr. 5. gr. og 2. mgr. b-liðar 6. gr. frumvarpsins sem greiða fyrir fjárfestingu lífeyrissjóða í sértryggðum skuldabréfum féllu brott, en tilgangur þeirrar breytingar var að mati nefndarinnar að standa vörð um innstæður í bönkum og sparisjóðum. Breytingartillaga nefndarinnar sætti gagnrýni Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fjármálafyrirtækja. Samtökin töldu ákvæði frumvarpsins mikilvæg til að auka fjárfestingarmöguleika lífeyrissjóða og treysta langtímafjármögnun fjármálafyrirtækja. Þau töldu heppilegra að vernda innstæður með öðrum hætti en þeim að banna útgáfu sértryggðra skuldabréfa eða draga úr útgáfu þeirra og bentu á ýmsar ráðstafanir til þess sem þegar væri í gildi eða í undirbúningi. Samtök fjármálafyrirtækja lögðu fram útreikninga sem sýndu að lífeyrissjóðir hefðu lítið svigrúm til frekari kaupa á sértryggðum skuldabréfum fjármálafyrirtækja ef frumvarpsákvæðin yrðu ekki að lögum. Einnig gæti orðið lítið svigrúm fyrir lífeyrissjóði til að kaupa hlut í bönkum ef sértryggð skuldabréf væru sett í sama eignaflokk og önnur verðbréf banka.

Nefndin taldi rétt að koma til móts við þessi sjónarmið og leggur til að frumvarpsákvæðin falli því ekki brott. Nefndin telur þó rétt að stíga varfærnara skref en gert er ráð fyrir í 2. mgr. b-liðar 6. gr. frumvarpsins með því að miða við að lífeyrissjóðum sé heimilt að binda allt að 10% í sértryggðum skuldabréfum sama útgefanda í stað 15%.

Í breytingartillögu nefndarinnar var lagt til að lögin öðluðust gildi 1. janúar 2017, en af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða kom fram að mun lengri tíma þyrfti til að undirbúa framkvæmd laganna. Nefndin leggur til að lögin öðlist þess í stað gildi 1. júlí 2017.

Virðulegi forseti. Ég hef nú í grófum dráttum rakið efni framhaldsnefndarálitsins, en breytingartillögurnar sjálfar er að finna í þingskjalinu.

Undir framhaldsnefndarálitið rita þann 28. september eftirtaldir hv. þingmenn: Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Brynjar Níelsson, Guðmundur Steingrímsson, Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Valgerður Bjarnadóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson.