145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[10:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Það er með ólíkindum að það skuli vitnast hér á föstudegi þegar verið er að ganga frá þessu máli að bið okkar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins eftir viðbrögðum umhverfisráðuneytisins í málinu, löng bið, skýrist af því að það hafi verið gefin fyrirmæli af ráðuneytisstjóra og ráðherra í umhverfisráðuneytinu um að svara ekki fyrirspurn nefndarinnar um viðbrögð við máli þar sem meginmarkmiðið er að gera breytingar á náttúruverndarlögum, í máli sem þar að auki snertir á fjórum eða fimm ólíkum lögum sem öll heyra undir umhverfisráðuneytið. Ég minnist þess ekki að hafa orðið vitni að viðlíka vinnubrögðum áður, en það þarf auðvitað að fara vandlega yfir þau. Þetta sýnir með hvaða hætti allur málatilbúnaðurinn er í þessu máli og hversu ógeðfelldur hann er.