145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[10:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst nokkur orð um aðgang Alþingis að embættismönnum ríkisins og sérfræðiþekkingu þeirra til þess að stuðla að sem vandaðastri lagasetningu og sem öflugustu eftirlitshlutverki. Það hlýtur og á að vera forseta þingsins og raunar forsætisnefnd allri áhyggjuefni ef þingnefnd fær ekki aðgang að sérfræðiþekkingu í ráðuneyti af pólitískum ástæðum. Það er grundvallaratriði um það að við nýtum þá þekkingu sem við eigum í stjórnkerfi okkar, þá fjármuni sem við verjum til að ráða sérfræðinga til starfa, að Alþingi hafi alltaf aðgang að því óháð því hverjir sitja í ríkisstjórn eða hvaða flokkar fara með ráðuneyti eða í hvaða ráðuneyti viðkomandi mál kann að liggja.

Í öðru lagi vil ég spyrja forseta hvort það eigi að skilja ummæli hans sem svo að þó að málið fari á dagskrá hér verði 2. umr. ekki lokið fyrr en álit yfirlögfræðings Alþingis á málinu liggur fyrir.