145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

skipting fjármagnstekna og launatekna.

[10:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör, skýr svör að því leyti til að hann vill ekki bregðast við því að við gætum verið að sjá fram á aukinn ójöfnuð í landinu. Það er alveg rétt, hæstv. ráðherra vitnar í tölur frá 2013 og 2014. Við erum að tala um að þessi þróun á sér stað á árunum 2014–2015. Það er rétt að það er efnahagslegur uppgangur en þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að honum er ekki skipt með jöfnum hætti. Við gætum séð fram á það, og væntanlega munum við sjá fram á það, ef þetta stenst sem hér hefur verið vitnað til, gögn frá ríkisskattstjóra og gögn frá Hagstofu Íslands, að við munum færast aftur í ójafnaðarátt. Er það þangað sem hæstv. ráðherra vill fara þegar hann segir hér að hann sjái ekki fyrir sér að þetta verði gert með breytingum á skattkerfinu? Telur hann ekki eðlilegt að nýta það til þess að jafna kjör í landinu, sérstaklega í ljósi þess sem ég vitnaði hér til áðan, að jöfnuðurinn snýst ekki bara um pólitíska kreddu, hann snýst um aukna efnahagslega hagsæld heilt yfir. Það getum við séð bara með því að bera okkur saman við önnur lönd (Forseti hringir.) þar sem mikill jöfnuður ríkir og þær rannsóknir sem hafa verið gerðar. Ég held að það sé full ástæða til að staldra við og hafa áhyggjur af því hvert við stefnum þegar við sjáum svona tölur.