145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

aðgerðir gegn skattundanskotum.

[10:54]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og er á svipuðum slóðum og hv. þingmaður á undan, þ.e. að velta fyrir mér skattheimtunni. Við höfum mikið rætt þörf á uppbyggingu innviða, þörf á uppbyggingu í ýmsum velferðarkerfum og hæstv. ráðherra hefur oft og réttilega bent á það að frekari útgjöld séu tengd jöfnuði í ríkisfjármálum o.s.frv. Þá verðum við að horfa á tekjur ríkissjóðs sem koma fyrst og fremst af skatttekjum og þá er mikilvægt að hugsa það að skatttekjur eru ekki í eðli sínu slæmar heldur þvert á móti nauðsynleg og eðlileg tekjuöflun til sameiginlegra verkefna. Því langar mig aðeins til að velta því fyrir mér, og spyrja hæstv. ráðherra, hvaða aðgerðir hafi verið í gangi og hver sé staða á aðgerðum til að koma í veg fyrir skattundanskot. Einhver stærsta pólitíska bomba þessa kjörtímabils var birting Panama-skjalanna þar sem kom í ljós að 600 íslenskir lögaðilar ættu reikninga í skattaskjólum og á kjörtímabilinu sömuleiðis voru keypt gögn um eignir Íslendinga sem hafði verið skotið undan skatti í skattaskjólum. Mig langaði til þess að hlera hjá hv. ráðherra hver staðan væri á rannsókn þessara mála og hver afstaða hans væri almennt gagnvart þessu. Ég kem kannski frekar að öðrum þáttum skattheimtu í seinni ræðu, en maður veltir fyrir sér að í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar var talað sérstaklega um að tekið skyldi á kennitöluflakki. Það væri gaman að heyra hvernig það hefur gengið, fá smáskýrslu í lok kjörtímabilsins.