145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

samfélagsjöfnuður.

[11:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi ræða vera ágætur vitnisburður um að Samfylkingin er hvorki með hægri hlið né nokkra miðju. Hún er orðin harðsvíraður vinstri flokkur.

Í fyrsta lagi: Því var lofað af fjármálaráðherra Samfylkingarinnar að auðlegðarskatturinn yrði afnuminn. Þau mundu láta hann renna út. Það var sérstakt loforð fyrir kosningar. En nú á að berja á þeirri ríkisstjórn sem hér situr fyrir að hafa ekki framlengt skattinn.

Í öðru lag spyrja menni: Af hverju segið þið það ekki bara beint út að þið viljið að sumir hafi það betra en aðrir? Ja, ég segi bara á móti: Af hverju segið þið það ekki bara beint út að ef sumum mun ganga eitthvað betur en öðrum sé það ykkar stefna að jafna þann mun aftur með sköttum? Segið þið það bara beint út. Það má enginn hafa það betra en annar. Það er sanngjarnt að þá sé staðan jöfnuð með sköttum. Af hverju segið þið það ekki bara beint út?

Við erum ekki slíkur flokkur. Við ömumst ekki við því að sumum gangi betur en öðrum. Það er bara þannig. Við viljum sanngjarnt skattkerfi sem tryggir að allir skili sínu. Þannig er tekjuskattskerfið í dag, menn skila hærra hlutfalli af launum eftir því sem launin eru hærri. Varðandi eignarskatta þá er það þannig að hvarvetna er verið að afnema þá.

Nú væri ágætt að vita hvort menn væru að boða það hér að taka ætti upp að nýju eignarskatta, en það var nefnt sem sérstök réttlæting fyrir auðlegðarskattinum á sínum tíma að hann væri einungis tímabundinn. Það var rökstuðningurinn í Hæstarétti þegar látið var reyna á stjórnskipulegt gildi hans að hann ætti að halda einmitt vegna þess að hann væri tímabundinn. Okkar skattatillögur hafa miðað að því að létta undir með millitekjufólkinu, lágtekjufólkinu og þeir sem haft hafa meira á milli handanna greiða meira en aðrir.