145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

samfélagsjöfnuður.

[11:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Auðvitað hafa einhverjir það betra en aðrir. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera. Spurningin hér er hvort Alþingi og ríkisstjórn beiti sér fyrir því að auka á þann ójöfnuð, láta þá tekjuhærri hafa stærri hluta af kökunni, láta þá ríkustu hafa stærri hluta af eignunum en alla aðra. Þess vegna verður Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að svara því hreint út hvort það sé ekki ljóst, af þeim tölum sem nú hafa verið birtar, að auðlegðarskatturinn sem 5.000 ríkustu heimilin í landinu greiddu, hefði getað fylgt höftunum eins og hann átti alltaf að gera, verið framlengdur með höftunum allt þetta kjörtímabil og skilað þannig tugum milljarða í sameiginlega sjóði og dregið úr þeim aukna ójöfnuði sem við horfum á hér á þessu kjörtímabili.