145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

samfélagsjöfnuður.

[11:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem við töldum rétt að gera var einfaldlega það að skattar sem höfðu verið kynntir til sögunnar sem tímabundnir skattar mundu renna sitt skeið. Við töldum það líka rétt að afnema undanþágur fyrir slitabú sem vinstri stjórnin hafði fest í lög. Með því tókum við um 40 milljarða af slitabúum og fjármálafyrirtækjum sem við hækkuðum skattana á. Við settum skattana á slitabúin, við settum skattana á fjármálafyrirtækin og við tókum skattana af heimilunum. Við léttum sérstaklega á tekjuskattsgreiðslum heimilanna, tókum ýmis opinber gjöld til endurskoðunar, afnámum vörugjöld og tolla.

Mér finnst ástæða til að minna á það að við beittum algerlega nýrri hugmyndafræði þegar kom að tollunum. Við ætluðum ekki að bíða eftir næsta fríverslunarsamningi. Við horfðum einfaldlega þannig á að þessir tollar væru lagðir á heimilin í landinu og það væri orðið tímabært að afnema þá. Það gerðum við og léttum þannig undir með öllum almennum heimilum í landinu þó að aðrir vilji sjá þá hluti í öðru ljósi.