145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[11:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það kemur fram í máli hans að menn hafi talið að löggjöfin væri of sértæk og það stæðist ekki gagnvart sjónarmiðum um samkeppni og mismunun og því hafi þurft að víkka löggjöfina, löggjöfin þurfi sem sagt að vera almenn.

Mig langar í ljósi þess að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að líkur aukist á fordæmisgildi löggjafarinnar í ljósi þess að hún er orðin almenn sem var sannarlega ekki það sem meiri hlutinn lagði upp með. Í framsögu ráðherra kom fram að löggjöfinni væri ætlað það eitt að koma til móts við stöðuna sem komin var upp fyrir norðan út af línunum sem tengdust Bakka. Núna má það ekki lengur vera sértækt og verður að vera almennt. Ég vil spyrja hv. þingmann um það hvernig hann sér þessa mótsögn og hvernig hann getur rökstutt hana.

Ég vil líka spyrja hann um það af því að nú kemur fram í svokölluðu sólarlagsákvæði að þessi breyting eigi ekki við um leyfi sem eru veitt eftir 31. desember 2017: Á þessi lagabreyting sem hv. þingmaður er að mæla fyrir og hæstv. ráðherra og meiri hluti nefndarinnar við Hvammsvirkjun? Á hún við línulagnir á Reykjanesskaga? Á hún við vegagerðarverkefni sem hafa þegar undirgengist mat á umhverfisáhrifum og eru í framkvæmdafasa? Á hún við verkefni sem lúta að efnistöku víða um land og hafa þegar undirgengist mat á umhverfisáhrifum og eru sömuleiðis í framkvæmdafasa? Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta og að lokum hver hættan er á fordæmisgildi þessarar löggjafar. Er kæruréttur umhverfissamtaka einhvers virði ef þetta er gert núna? Hver er hættan á því (Forseti hringir.) að meiri hlutar framtíðarinnar á Alþingi sem eru framkvæmdamiðaðar geri samsvarandi frumvarp um öll óþægileg kærumál sem stafa frá umhverfisverndarsamtökum?