145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að það er auðvitað mjög víðtækt kæruferli sem getur átt sér stað á mörgum stigum undirbúnings stórframkvæmda sem þessa og við höfum mjög bætt við okkar löggjöf á því sviði á undanförnum árum. Það er í sjálfu sér eðlilegt að menn geti kært og það er kæruferli bæði hvað varðar umhverfismat og önnur atriði sem eru á leiðinni. Þetta er orðið mjög flókið og viðamikið ferli. Það hefur m.a. verið bent á það af mörgum aðilum að við séum með jafnvel of flókið og tímafrekt ferli þegar kemur að þessum málaflokki.

Það kom fram í minnisblaði iðnaðarráðuneytisins að löggjöfin yrði að vera almenn, að öðrum kosti hefði þetta verið kæranlegt út af brotum á EES-samningi til ESA. Eykur það líkur á fordæmisgildinu? Eflaust hafa öll lög og allar okkar aðgerðir hér á Alþingi eitthvert fordæmisgildi, en eins og ég sagði áðan þá geri ég ráð fyrir því, sama hvaða stjórnvöld verða við völd eftir kosningar, að gerðar verði breytingar á þessu vegna þess að vilji löggjafans getur ekki hafa verið sá að skipa málum með þeim hætti sem hér birtist okkur, að á síðustu stigum verkefna, stórverkefna þar sem búið er að fjárfesta kannski fyrir milljarða króna, tugi milljarða jafnvel og enn meira, þá geti komið til einhver kæra sem raski öllum grundvelli undir þeim framkvæmdum. Þá fer enginn af stað í neinar framkvæmdir. Það verður verkefni okkar að aðlaga löggjöfina að þessu og koma framkvæmdaleyfinu fyrr inn í ferlið þannig að um það geti verið fjallað samhliða öðrum ákvörðunum.

Hvort þetta hefur áhrif á Hvammsvirkjun, Reykjaneslínu eða vegaframkvæmdir eða hver önnur verkefni þá voru nefnd ákveðin verkefni í minnisblaði iðnaðarráðuneytisins. Þetta á auðvitað við þau verkefni eins og segir í textanum sem til koma eftir gildistöku laganna.