145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það á auðvitað alltaf að fara eftir lögum í þessu landi, ég hef aldrei gefið neitt annað í skyn. Það hefur reyndar mál verið dæmt í Hæstarétti sem snertir rétt sveitarfélaga, t.d. í skipulagslögum, þar sem fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra var dæmdur í Hæstarétti fyrir að framfylgja ekki lögum. Þessi sami hæstv. umhverfisráðherra sagði að sér kæmu lögin ekkert við því hún væri í sinni stöðu til að vernda náttúruna. (SSv: Hvenær sagði hún það?) En (Gripið fram í.) varðandi það sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir talaði um, þ.e. flóðgátt fyrir önnur verkefni, ef það var vitneskja ákveðinna þingmanna þegar ný náttúruverndarlög voru lögfest að þau mundu hafa umtalsverð áhrif á yfirstandandi verkefni þar sem búið var að fara eftir öllum lögformlegum ferlum og reyndar var vandað alveg sérstaklega til þess eins og í tilfelli Bakka, að þau hefðu áhrif á að hægt væri að stoppa verkefnið þegar svo langt væri komið, þá kom það ekki fram í umræðunni um þau lög. Ég veit ekki um einn einasta þingmann sem gerði sér grein fyrir því þá þegar við settum þau lög sem tóku gildi í nóvember 2015. Við skulum hafa í huga að undirbúningur fyrir þetta verkefni hófst tíu árum fyrr eða rúmlega það. Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tímann komið fram í umræðunni að hér væri komið verkfæri til þess að fara inn í verkefni sem fylgt hefðu öllum lögbundnum ferlum, væru komin mjög langt og búið að eyða stórkostlegum fjármunum og tíma í undirbúning á, að það hafi verið markmiðið með setningu náttúruverndarlaga að þau yrðu afturvirk og gætu tekið til þess að breyta grundvelli þeirra framkvæmda sem áður voru komnar af stað.

Við þurfum auðvitað að breyta lögunum. Og varðandi þetta með mengandi stóriðju á Bakka er það nú verkefni sem kom til á síðasta kjörtímabili, m.a. með þátttöku þingmanna sem þá voru í Samfylkingunni en eru núna í Bjartri framtíð, þeir greiddu því atkvæði á þeim tíma, bara svo það sé sagt, (Forseti hringir.) þeirri mengandi stóriðju sem þar er. Já, stóriðjan á Bakka mengar átta sinnum meira á framleitt tonn en hvert álver. En menn töldu það réttlætanlegt og verkefnið er komið mjög langt. Eins og fram kom í ræðu minni á verksmiðjan að taka til starfa á næsta ári.