145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einhver misskilningur í gangi ef sagt er að við séum að tala hér um lög um rammaáætlun. Þau koma þessu máli ekkert við, svo því sé haldið til haga.

Sérhagsmunir eru gríðarlegir. Ömurleg stefna um mengandi stóriðju sem við eigum að falla frá. Hvaða flokkur hefur þá stefnu að auka frekar á stóriðju í þessu landi? Ekki nokkur einasti flokkur. Í atvinnuveganefnd var skilað þingsályktunartillögu núna á vordögum sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði fram um nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi á næstu árum og áratugum. Þar sameinuðust fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, framsóknarmanna og sjálfstæðismanna um sameiginlegt nefndarálit um það hvernig við sjáum þessar fjárfestingar eiga sér stað einmitt um minni iðnað byggðan á orkutengdum iðnaði 5–50 MW sem við gætum dreift sem víðast um landið og búið til sóknarfæri fyrir landsbyggðina til að auka á fjölbreytni í atvinnulífi og verðmætasköpun í þessu landi. Eini fulltrúinn í atvinnuveganefnd sem ekki var með (Gripið fram í.) öllum hinum flokkunum á þingsályktunartillögunni var fulltrúi Bjartrar framtíðar, hv. þm. Björt Ólafsdóttir. Þetta fjallar bara ekki um þá sýn að hér eigi að vera einhver stóriðja í framtíðinni, akkúrat ekki, einmitt í hina áttina. Við erum öll sammála um það og það held ég að hv. þingmaður viti en hún kýs að vera hér með einhverja útúrsnúninga í einhverjum pólítískum skrípaleik. (BjÓ: Þú veist betur en ég, það hlýtur að vera. …)

Málið fær ekki eðlilegan framgang, segir hv. þingmaður. Hvað þýðir það að hafa eðlilegan framgang gagnvart íslenskum lögum? Er það eðlilegur framgangur að vera búinn að undirbúa einhver verkefni samkvæmt gildandi lögum, búin að fá þá einkunn m.a. frá Landvernd, sem staðfest er í bréfi, (Gripið fram í.)að önnur sveitarfélög í landinu ættu að taka Þingeyinga sér til fyrirmyndar um hvernig þeir stóðu að undirbúningi að þessu máli? Hvernig er hægt fyrir borgarana í þessu landi að gera einhverjar áætlanir og fara af stað með einhver verkefni eða taka hvaða ákvarðanir sem er ef Alþingi getur síðan bara dottið í hug einn daginn að setja lög sem þingmenn segja að séu afturvirk og verkefnin stoppuð? Það er réttur (Forseti hringir.) borgaranna að slíkt viðgangist ekki og það hefur aldrei viðgengist hér á Alþingi að lög geti verið afturvirk með slíkum hætti. Það er það sem við erum að breyta hér.