145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[17:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú háttar svo til í þessu máli að á meðan hv. þingmaður flutti ræðu sína barst hér í hús úrskurður nefndarinnar þar sem felld er úr gildi sú ákvörðun Skútustaðahrepps frá því í vor að samþykkja framkvæmdaleyfi til handa Landsneti fyrir Kröflulínu 4. Það er því ljóst að orðið hefur alger umpólun á þessum málatilbúnaði öllum hjá meiri hluta þingsins og kannski ekki hægt að fara mjög efnislega ofan í úrskurðarorðin eða niðurstöðu nefndarinnar. En ljóst er að málið er í fullkomnu uppnámi og þarfnast endurskoðunar algerlega frá grunni í ljósi þeirra tíðinda sem hingað voru að berast í hús. Ég held að það væri eðlilegt, án þess að ég ræði það í sérstöku andsvari, að forseti gerði hlé á þessum fundi þar sem menn fengju tækifæri til að fara yfir úrskurðinn og velta fyrir sér hver eðlileg næstu skref væru. En ég vil spyrja hv. þingmann, úr því að ég er hér í andsvari við ræðu talsmanns 2. minni hluta atvinnuveganefndar sem fulltrúi okkar í Bjartri framtíð hv. þm. Björt Ólafsdóttir á aðild að: Er þetta í raun og veru ekki alger sigur fyrir þá sem hafa viljað virða það ferli sem er í gangi? Við höfum verið að bíða eftir því og óska eftir því að löggjafinn gripi ekki inn í áður en hið lögformlega ferli kláraðist.