145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað svolítið sérstakt að fá eiginlega í beinni útsendingu niðurstöðu úrskurðarnefndar í þessu máli sem er alvarlegt á alla kanta. Ég get vel skilið áhyggjur heimamanna yfir því að þetta hafi þau áhrif að framkvæmdir dragist á Bakka, þ.e. að fá orkuafhendingu til þær framkvæmda sem búið er að samþykkja og afgreiða af hálfu þingsins eins og gert var á sínum tíma og menn töldu komnar í höfn og að þeir gætu haldið þeirri vinnu samfellt áfram. En það verða allir að líta í eigin barm í þeim efnum og ekki síst Landsnet. Vitað er að Landvernd, Fjöregg og fleiri hafa gert athugasemdir við það hvernig staðið væri að línulögnum. Ef það hefði verið jákvæður vilji hjá Landsneti til að hleypa þeim sjónarmiðum að fyrr í málinu og að sækja um framkvæmdaleyfi fyrr hefði kannski verið hægt að komast hjá þeirri stöðu sem við erum í núna. En íslensk stjórnsýsla setur oftar en ekki hausinn undir sig og keyrir á vegg: ég má, ég get, ég vil og ég ætla, í stað þess að vera lausnamiðuð og virða aðkomu náttúruverndarsamtaka og almennings sem hefur náðst í gegn með mikilli þrautseigju í gegnum árin. Það er ekki eins og réttur almennings og félagasamtaka til að hafa aðgengi að kærum í ferli oft umdeildra mála detti bara sjálfkrafa niður af himninum. Við þekkjum það. Þess vegna tel ég að nú eigi ríkisvaldið að draga (Forseti hringir.) þetta mál til baka og skoða upp á nýtt í ljósi þessarar niðurstöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)