145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[17:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Sú atburðarás sem á sér stað núna sýnir einmitt svart á hvítu hversu fáránlegt það er að draga þetta frumvarp inn á dagskrá þrátt fyrir að við í minni hlutanum höfum kallað eftir því að forseti mundi bíða með málið og færa það aftar á dagskrána í dag því að fyrir liggur að í þessari viku mun niðurstaða liggja fyrir frá úrskurðarnefndinni. Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt. Nú hef ég setið á nokkrum fundum um þetta mál og þar höfum við haft einn helsta sérfræðing okkar í málefnum umhverfisréttar, hann hefur ítrekað komið fyrir nefndina, og síðan búum við svo vel að hafa hér fyrsta eða annan alvöru umhverfisráðherrann sem þingmann í nefndinni sem hefur spurt ítarlegra spurninga og bent á og sýnt fram á að þetta ferli skerðir verulega réttindi almennings sem í landinu býr.

Í ljósi þess að við höfum ekki getað kynnt okkur ítarlegan úrskurð sem er upp á 20 blaðsíður, væri ekki réttast hreinlega að gefa þingmönnum færi á að kynna sér þetta mál? Og væri ekki best fyrir stjórnarmeirihlutann að hlusta á þá þingmenn sem hafa viðamikla reynslu af þessum málaflokki, hafa staðið vörð um náttúru Íslands, í stað þess að fara bara áfram með bundið (Forseti hringir.) fyrir augu og eyru í þeirri von að hægt sé að klára málið nógu hratt svo úrskurðirnir liggi ekki fyrir? Þeir óttast þá.