145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar í máli nr. 826, sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og varðar losun fjármagnshafta.

Nefndin fjallaði um málið að nýju eftir 2. umr. í þingsal og leggur til nokkrar viðbótarbreytingar á frumvarpinu. Þær eru í sjálfu sér ekki sérstaklega efnismiklar heldur miklu frekar til skýringar á nokkrum þáttum. Breytingartillagan liggur frammi á sérstöku þingskjali, nr. 1744, þar sést að hún tekur aðallega til fjögurra þátta. Nefndarálitið liggur frammi á sérstöku þingskjali einnig, nr. 1743. Ég ætla ekki að lesa það hér upp enda hefur það legið frammi í nokkra daga. Ég vil hins vegar tilgreina í grófum dráttum hvaða breytingar er verið að gera.

Í fyrsta lagi þá lúta fyrstu tveir liðirnir eingöngu að því að gera eitt ákvæði skýrara, þ.e. að tiltekin tilvísun í frumvarpinu til reiðufjárúttektar falli brott þannig að það verði skýrara að undir töluliðinn falli eingöngu úttektir í reiðufé þegar annar aðilinn er innlendur og hinn erlendur, þ.e. að um sé að ræða svokallaðar fjármagnshreyfingar á milli landa.

Helsta breytingin kannski sem hér er lögð til lýtur að 12. gr. frumvarpsins og er sett fram til þess að gera c-lið 12. gr. mun skýrari en var í frumvarpinu, þá vísa ég líka til þess eins og frumvarpið er eftir 2. umr. Frumvarpið var orðið þannig að í 12. gr. var gert ráð fyrir því að Seðlabankinn setti reglur til nánari fyllingar og skýringar á c-lið 12. gr. Nefndin telur hins vegar mjög brýnt þegar um er að ræða ákvæði sem þetta sem lýtur að tilkynningarskyldu lögaðila varðandi fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipta milli landa að það sé alveg skýrt í lögunum sjálfum hvaða tilvik falli þar undir. Seðlabankinn hafði sett fram reglur er lúta að þessu og við skoðun á þeim taldi nefndin rétt að það sem kveðið er á um í þeim reglum yrði hreinlega sett inn í lögin. Það er sem sagt gert hér.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálitsins í heild eins og það liggur fyrir.

Undir nefndarálitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar, Willum Þór Þórsson, Guðmundur Steingrímsson, Steingrímur J. Sigfússon, Líneik Anna Sævarsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir og Óli Björn Kárason.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum nefna það, af því að það er nú ekki algengt að frumvörp taki einhverjum breytingum milli 2. og 3. umr. í þingsal þó að ekkert sé að sjálfsögðu óeðlilegt við það og gerist gjarnan en er kannski ekki hefðbundið, en við skoðun og vinnslu á þessu máli, breytingu á lögum um gjaldeyrismál, er að mínu viti algjörlega ljóst og ég vona að það sé öllum ljóst að lög um gjaldeyrismál þarf að endurskoða mjög fljótlega með tilliti til skýrleika ákvæðanna. Þær reglur sem lúta að gjaldeyrishöftunum og koma fram í lögunum hafa auðvitað tekið svo miklum breytingum undanfarin ár að það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að það er ekki fyrir held ég nema mjög vana að setja sig inn í þær. Ég vona a.m.k. að það verði eitt af fyrstu verkum nýs þings að taka þessa löggjöf til gagngerrar endurskoðunar þótt ekki væri nema með tilliti til skýrleika, en að sjálfsögðu verður það gert í framhaldi með það að markmiði að losa höftin frekar. Þessi lög leggja á gríðarleg höft og geta verið flókin og það er mjög brýnt að allar reglur séu settar fram í löggjöfinni sjálfri en ekki sé vísað í löggjöf til reglna sem Seðlabankinn eða önnur stjórnvöld setja.