145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það nú bitamunur en ekki fjár að eldra fólk megi taka 25 ára lán. Já, en forsjárhyggjan er söm að banna fólki að taka 40 ára lán vegna þess að það getur vel verið að fólk vilji taka 40 ára lán, það eru minnstar afborganir af því og fólk vill kannski gera það. Hvers vegna í ósköpunum ætlar löggjafinn að fara að banna það? Það hlýtur þá að vera þannig að bankinn eða sá sem lánar álíti að fólk sé of gamalt til að taka þetta lán, sem ég get ekki séð að skipti máli vegna þess að það er eignin sem stendur undir þessu, það er veðið sem skiptir máli en ekki aldur fólks. Það getur vel verið að eldra fólk vilji líka vera með litlar afborganir á fyrstu árum og þar fram eftir götunum. Þetta er forsjárhyggja af verstu sort.

Hvað varðar skýrsluna eða greinargerðina frá Ólafi Margeirssyni, já, ég las hana. Það getur svo sem vel verið, ég ætla ekki að afneita því, að ef verðtryggingin er mjög útbreidd verði stýrivextirnir 1–2% hærri en þeir yrðu ella og þeir hafi minni áhrif en ella. Það sem skiptir meginmáli, virðulegi forseti, er hins vegar gjaldmiðillinn, þessi litli gjaldmiðill. Við verðum alltaf með hærri vexti en löndin í kringum okkur á meðan við erum með minnsta gjaldmiðil í heimi. Þannig er það bara.