145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Páll Jóhann Pálsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég ætla ekki að fara að segja þingmönnum næsta kjörtímabils fyrir verkum, hvort þeir eigi að halda áfram að leggja þetta framlag til þessara mála eða ekki. Ég treysti þeim til að ákveða það sjálfir.

Ferðamannastraumurinn til landsins verður alltaf meiri og meiri. Það er alveg sama hve mikilli aukningu bjartsýnustu menn spá, hún virðist alltaf verða meiri. Það verður að segjast eins og er að þetta springur í fangið okkur, við höfum ekki undan að skipuleggja. Eins og segir þarna er verið að myndast við að gera eitthvert átak í þessum málum, bæði að efla menntunarstig og reyna að spyrna við fótum.

Ég get svo sem ekkert annað en bara ítrekað að það er verið að sýna lit, að reyna að koma til móts við þessa aukningu. Það er eiginlega sama hvað við gerum, það er alltaf eins og við gerum aldrei nóg fyrir þennan málaflokk.